Valur tryggði sér sæti í úrslitaeinvígi Dominos deildar kvenna með sigri á Keflavík í leik fjögur í undanúrslitaeinvígi liðanna. Leikur liðanna í dag var sveiflukenndur en sigurinn datt með Val að lokum. Lokastaðan í einvíginu er 3-1 fyrir Val og liðið komið í úrslit í fyrsta skipti í sögunni. 

 

Gangur leiksins: 

 

Valskonur byrjuðu mun betur og komust strax í 8-0 á upphafsmínútunum. Þær Whiteside og Elín Sóley fóru fyrir sínu liði í byrjun og vörnin gerði vel að stoppa Keflavík. Íslandsmeistararnir náðu hinsvegar góðu áhlaupi þar sem munurinn varð tvö stig. Þá snerist leikurinn aftur og Keflavík setti fimm þriggja stiga skot í röð í lok fyrsta leikhluta. Staðan því eftir fyrsta leikhluta var 33-16. 

 

Valur var með stjórnina á leiknum framan af öðrum leikhluta og náðu muninum í 18 stig mest. Sveiflurnar héldu áfram því Keflavík tókst að svara áhlaupinu og jafna leikinn þar sem Brittany Dinkins var algjörlega mögnuð. Staðan í hálfleik var 54-47 í einhverjum kaflakenndasta hálfleik tímabilsins. 

 

Keflavíkurvörnin mætti í þriðja leikhluta. Þær pressuðu hátt og Valur gerði mörg mistök eftir það. Á meðan saxaði Keflavík á Val og var ljóst að liðið ætlaði að koma sér aftur inní leikinn. Það tókst nokkuð vel en munurinn var minnstur tvö stig. 

 

Það var ljóst strax í fyrstu sókn fjórða leikhluta að spennustigið var hátt og mikið undir. Mikið var um klaufaleg mistök og furðulegar ákvarðanir. Keflavík komst yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar fimm mínútur voru eftir og stemmningin virtist algjörlega vera að færast yfir til þeirra. Valur átti síðasta áhlaupið sem dugði til sigurs í þessum kaflaskipta leik. Lokastaðan 99-82 fyrir Val og er liðið því komið í úrslitaeinvígið. 

 

Hetjan:

 

Hetja kvöldsins var Dagbjört Dögg Karlsdóttir, hún kláraði leikinn fyrir Val. Dagbjört steig þvílíkt upp í fjórða leikhluta og var algjör X-factor í þessum mikilvæga sigri Vals. Hún setti 14 stig bara í fjórða leikhluta og spilaði magnaða vörn á Britanny Dinkins í lokin sem reyndist þáttaskil í einvíginu. Aaliyah Whiteside var einnig sterk sóknarlega en hún er nánast á einum fæti vegna meiðsla. Guðbjörg Sverrisdóttir og Elín Sóley Hrafnkellsdóttir voru einnig mjög sterkar og munaði mikið um þeirra framlag.

 

Brittanny Dinkins var öflug fyrir Keflavík, var með 35 stig og 8 stoðsendingar. Hún var orðin mjög þreytt í lokin og þá vantaði liðinu að einhver annar leikmaður myndi stíga upp. 

 

 

Kjarninn

 

Valur er komið í úrslitaeinvígið þetta árið og mætir Haukum. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Vals sem meistaraflokkur kvenna kemst í úrslitaeinvígið í efstu deild, þrisvar áður hefur liðið komist í undanúrslit en í dag tókst það. Liðið á það algjörlega skilið að vera komið á þennan stað eftir frammistöðuna í einvíginu. Liðið framkvæmdi vel sóknarlega gegn góðri vörn Keflavíkur. Margir leikmenn eru að leggja í púkk fyrir liðið og í kvöld var erfitt að velja besta leikmenn liðsins. Segja má að Dagbjört Dögg hafi þó landað sigrinum með framlagi sínu í lokin. 

 

Keflavík náði einfaldlega ekki taktinum í vörninni heilt yfir í einvíginu. Meiðsli Emelíu Óskar og Þórönnu reyndust líklega banabiti Keflavíkur þetta tímabilið en varnarlega saknaði liðið þeirra gríðarlega. Leikmenn liðsins gerðu sitt besta og lögðu allt í þetta en á endanum voru gæðin líklega bara meiri Valsmegin. 

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Viðtöl eftir leikinn: 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson