Í kvöld mætast Haukar og Skallagrímur í 3. leik undaúrslitaeinvígis liðanna. Haukar leiða einvígið 2-0 og geta klárað dæmið í kvöld með sigri. Haukar unnu fyrsta leik 88-74 í Schenkerhöllinni og annan leikinn 64-75 uppi í Borgarnesi. Vinni Haukar í kvöld er liðið komið í úrslit. Vinni Skallagrímur er fjórði leikur seríunnar í Borgarnesi þann 13. apríl.

 

Karfan spjallaði við Bryndísi Gunnlaugsdóttur, leikmann ÍR og körfuboltaspeking, um leik kvöldsins.

 

 

 

Hvað er að fara að gerast í leik kvöldsins?

"Skallagrímur mun byrja leikinn af miklum krafti enda þýðir tap sumarfrí fyrir liðið en hægt og rólega munu Haukar stíga fram úr og vinna að lokum 15 stiga sigur"

 

Hvernig finnst þér þetta einvígi hafa spilast?

"Ég var búin að spá því að einvígið færi 3-1 fyrir Haukum þannig að það sem hefur komið mér mest á óvart er að Skallagrímur hafi ekki tekið heimaleikinn. Ég hélt að þetta yrðu jafnari leikir. En Haukarnir hafa verið að spila mjög vel og alltaf einhverjir leikmenn sem stíga upp í hverjum leik fyrir utan Helenu og Whitney"

 

Á Skallagrímur einhvern möguleika að koma til baka?

"Ég held að Skallagrímur eigi ekki möguleika á að vinna 3 leiki í röð gegn Haukum. Fyrir hlutlausa aðila væri auðvita gaman ef Skallagrímur myndi vinna í kvöld og hleypa smá fjöri í seríuna enda viljum við flest að allar seríur fari í oddaleik en ég held því miður að þetta er búið fyrir Skallagrím"