Fjörið heldur áfram í kvöld og þar ber að nefna að Breiðablik getur nælt sér í sæti í Domino´s-deild karla á nýjan leik eftir fjarveru síðan tímabilið 2009-2010. Jafnt er í undanúrslitum í Domino´s-deild karla, 1-1, á báðum stöðum. Þessir þrír risaleikir fara allir fram kl. 19:15 í kvöld.

Hamar-Breiðablik (0-2 Breiðablik), 19:15
Þrátt fyrir 0-2 stöðu Blika í seríunni hafa fyrstu tveir leikirnir verið svakalegir. Blikar tóku fyrsta leikinn 104-108 eftir framlengingu þar sem sjö leikmenn liðsins gerðu 12 stig eða meira í leiknum. Minna var skorað í öðrum leiknum en þar vann Breiðablik nauman 87-84 sigur. Takist Blikum að vinna í Frystikistunni í kvöld eru þeir komnir í úrvalsdeild á nýjan leik en Jón Arnór Sverrisson liðsmaður Hamars sem fagnar 20 ára afmæli sínu í dag ætlar sér varla að éta afmælistertuna eftir tapleik! Þetta verður naglbítur gott fólk, mætið snemma í Blómabæinn, það verður fullt.
Leikurinn verður í beinni á netinu hér

Haukar-KR (1-1), 19:15
Fyrst við erum að tala um afmælisbörn þá er það Ívar Ásgrímsson sem einnig fagnar afmæli í dag en hann á hörkuleik fyrir höndum með Hauka í kvöld. KR jafnaði seríuna eftir framlengdan leik í DHL-Höllinni svo leikurinn í kvöld skýrir að nýju hver sest við stýrið í seríunni. Jón Arnór Stefánsson fór af velli um miðjan þriðja leikhluta í síðasta leik og lék ekki meir, hvort hann verði á skýrslu í kvöld skýrist væntanlega með deginum en KR er búið að endurheimta fyrirliðann Brynjar Þór Björnsson.
Í beinni á Haukar TV

ÍR-Tindastóll (1-1), 19:15
Taylor er mættur aftur og ÍR fullmannaðir fyrir átökin í kvöld. ÍR kom flestum á óvart með sigri í Síkinu og jöfnuðu þar með seríuna 1-1. Ætli Stólarnir sér annan stórtitil á þessari vertíð þarf að verja Síkið betur. Að sama skapi voru þeir með sigur í Hertz-Hellinum í fyrsta leiknum og við mælumst til þess að fólk verði mætt tímanlega á völlinn í kvöld, einhver verður hitinn í húsinu!
*Beint á Stöð 2 Sport 3

Sjá alla leiki dagsins
 

Mynd/ Bjarni – Erlendur Ágúst og Blikar geta í kvöld tryggt sér sæti í Domino´s-deild karla á næstu leiktíð.