Líkt og fram kom á Karfan.is í gær hefur Stjarnan boðað til blaðamannafundar í hádeginu í dag þar sem efni fundarins er málefni meistaraflokks karla. Þegar leitað var nánar til forsvarsmanna Stjörnunnar um hvert efni fundarsins væri var sterklega gefið til kynna að um kynningu á nýjum þjálfara liðsins væri að ræða.

 

Hávær orðrómur hefur verið síðustu daga að Arnar Guðjónsson aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla væri á leið í Garðabæinn að taka við Stjörnunni. Þegar þessi orðrómur var borin undir forsvarsmenn Stjörnunnar var svarið „no comment“. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Karfan.is mun meginefni blaðamannafundarsins í dag þó vera sá að Arnar Guðjónsson hafi samið við Stjörnuna að þjálfa liðið á næstu leiktíð. 

 

Arnar Guðjónsson er alin upp í Borgarfirði en þjálfaraferill hans hófst hjá Sindra á Hornafirði árið 2005. Þar á eftir varð hann aðstoðarþjálfari hjá Fsu áður en hann flutti búferlum til Danmerkur árið 2009. Þar hefur hann þjálfað hjá liðum í efstu deild, fyrst lið Aabyhoj sem aðstoðarþjálfari og síðar aðalþjálfari. Þá kom hann við hjá BC Århus og síðar varð hann aðstoðarþjálfari Craig Pedersen hjá danska félaginu Svendborg. Á þar síðasta tímabili tók Arnar svo við sem aðalþjálfari liðsins og náði bronsi á sínu fyrsta áir, sem var besti árangur sem liðið hafði náð í áraraðir. 

 

Tíma Arnars hjá Svendborg lauk þrátt fyrir það eftir þetta tímabil en hann hefur á síðasta árinu ekki þjálfað félagslið. Arnar hefur verið aðstoðarmaður Craig Pedersen með Íslenska A-landsliðið síðustu ár og farið með liðið á tvö stórmót á þeim tíma, Eurobasket 2015 og 2017. 

 

Fróðlegt verður að sjá hvort orðrómur götunnar sé réttur þegar blaðamannafundur Stjörnunnar fer fram í dag í Garðabæ. Ljóst er að Karfan.is mun flytja frekari fréttir af fundi dagsins þegar að því kemur.