TAU Castello sem leikur í spænsku B-deildinni vann óvæntan sigur á CB Prat rétt í þessu. Ægir Þór Steinarsson leikur með Castello og var allt í öllu fyrir liðið.

 

Leikurinn var æsispennandi í lokin en frábær þriðji leikhluti Castelló fór langt með sigurinn á Prat. Prat er spútniklið deildarinnar hingað til og situr í þriðja sæti deildarinnar. Að lokum fór svo að Castelló vann með minnsta mögulega mun 68-69 á útivelli. 

 

Ægir átti algjörlega frábæran leik fyrir TAU Castello, endaði með 18 stig og tvær stoðsendingar. Á Facebook síðu félagsins segir að Ægir hafi tekið stjórnina á leiknum og klárað hann. Það er því nokkuð ljóst að okkar maður leiddi liðið til þessa óvænta og sögulega sigurs.

 

Með sigrinum komst Castello uppí sjötta sæti og tryggði sæti í úrslitakeppninni. Þetta er í fyrsta skipti í sögu félagsins sem liðið nær þangað en Castelló ætlar sér stóra hluti. Ægir þekkir vel til úrslitakeppninnar í deildinni en í fyrra komst hann og lið hans San Pablo Burgos uppí ACB deildina eftir sigur í úrslitakeppnina. 

 

Hvort hann geti leikið það eftir á nýjan leik mun koma í ljós en nú eru þrjár umferðir eftir af deildarkeppninni. 

 

Mynd / Facebook síða Castelló