Úrslitakeppnin í Domino´s-deild karla hefst í kvöld og eins og svo margir segja þá er nú hafið nýtt mót. Þór Akureyri og Höttur kvöddu Domino´s-deildina og Þór Þorlákshöfn og Valur sitja eftir í sætum 9 og 10 og taka ekki þátt í úrslitakeppninni. Tveir leikir eru á dagskránni í kvöld og hefjast þeir báðir kl. 19:15:
(2) ÍR – (7) Stjarnan – beint á Stöð 2 Sport 4
(4) KR – (5) Njarðvík – beint á KR TV
ÍR og KR hafa heimavallarréttinn en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram í undanúrslit deildarinnar. Hinar viðureignir úrslitakeppninnar eru Haukar-Keflavík og Tindastóll-Grindavík en þær rimmur hefjast annað kvöld þar sem Haukar og Tindastóll munu fara með heimavallarréttinn.
ÍR – Stjarnan
ÍR vann fyrri deildarleik liðanna 75-80 úti í Ásgarði en Garðbæingar komu fram hefndum í síðari umferðinni með 64-87 sigri í Hertz-Hellinum sem var jafnframt versta tap ÍR á heimavelli á tímabilinu. Þessi lið áttust einnig við í 8-liða úrslitum á síðustu leiktíð þar sem Stjarnan sópaði ÍR 3-0 út í sumarið.
KR – Njarðvík
KR vann báðar deildarviðureignir sínar gegn Njarðvík á tímabilinu og sló þá líka út úr bikarnum! Liðin mættust síðast í undanúrslitum 2016 þar sem KR sló Njarðvík út eftir oddaleik, 3-2.
Það er komin ákveðin trendlína í Domino´s-deildina en hún er sú að Íslandsmeistarar síðustu sex tímabil hafa einnig verið deildarmeistarar. Þetta leiðir þá líkum að góðu gengi Hauka í úrslitakeppninni en það er vitaskuld stórvafasamt að halda því fram af einhverjum þunga enda erum við að koma af einni af jöfnustu deildarkeppnum síðari ára.
Einn nýliði er í úrslitakeppninni þetta árið í hópi þjálfaranna en það er Njarðvíkingurinn Daníel Guðni Guðmundsson sem heldur inn í sína fyrstu úrslitakeppni af þjálfarastól. Sá sem oftast hefur farið í úrslitakeppnina sem þjálfari er annar Njarðvíkingur sem nú stýrir Keflavík, Friðrik Ingi Rúnarsson, en hann hefur þjálfað í 15 úrslitakeppnum og á leið inn í sína sextándu! Næsti maður á blað er Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar með sex úrslitakeppnir á bakinu og sú sjöunda á leiðinni.
Í kvöld hefst einnig úrslitakeppnin í 1. deild karla en þar mætast Breiðablik og Vestri annarsvegar og hinsvegar Hamar og Snæfell. Breiðablik og Vestri ríða á vaðið í kvöld kl. 19:15 í Smáranum en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í úrslit deildarinnar og þar þarf einnig að vinna þrjá leiki. Skallagrímur vann deildina og mun því ekki leika í úrslitakeppninni eins og lög gera ráð fyrir og eru komnir með sæti í Domino´s-deildinni næsta tímabil.
Hvað sem raular og tautar þá er þetta að bresta á, nú er vissara að draga fram lúðrana, fánana, treflana og allt heila klabbið og mæta á pallana!