KR og ÍR mættust í DHL höllinni seinni partinn í dag. KR stúlkur einar á toppi deildarinnar og án taps og ÍR að komast í fjórða sætið fyrir úrslitakeppnina. Fámennt lið KR sýndi sannaði að þær eru vel að deildarmeistaratitlinum komnar og var lokastaða leiksins 75-40.
 

Gangur leiksins

Það kom á óvart að aðeins átta leikmenn voru á skýrslu hjá KR en þær Ragnhildur, Kristbjörg, Margrét og Lexi Petersen voru allar í borgaralegum klæðum. KR-ingar byrjuðu leikinn vel, voru að sækja hratt á körfuna og það hentaði ÍR-ingum illa. Staðan eftir leikhlutann 17-11, heimastúlkum í vil.

KR hélt áfram að sækja á körfuna og nýtti sér styrkinn inn í teig þar sem það vantaði miðherjann Nínu í lið ÍR. Það virtist sem gestirnir gleymdu að stíga út og var KR því að fá mikið af tækifærum undir körfunni. Um miðjan leikhluta kviknaði smá neisti hjá ÍR og Birna setti niður tvö þriggja stiga skot í röð. Staðan í hálfleik 41-27.

KR hófu seinni hálfleikinn með látum með fyrstu körfunni og tóku gott 12-3 áhlaup fyrsta helming þriðja leikhlutans. Birna var áfram að draga vagninn sóknarlega fyrir ÍR en KR hélt áfram að breikka bilið og munurinn var orðinn 20 stig eftir 5 mínútna leik þegar Ólafur Jónas, þjálfari ÍR, tók leikhlé. Það hafði lítil áhrif því að leikhlutanum lauk 19-7 og staðan því 60-34.

ÍR-ingar voru áfram seinar til baka í fjórða leikhluta og munurinn var orðinn 30 stig þegar lokafjórðungurinn var hálfnaður. Lokatölur leiksins voru 75-40 og ljóst að KR voru eindfaldlega betra liðið í dag. KR-ingar tóku svo við deildarmeistaratitlinum eftir leikslok.
 

Deildarmestaratitilinn veittur að leik loknum

Páll Kolbeinsson, formaður afreksnefndar KKÍ veitti KR-ingum deildarmeistarabikarinn að leikslokum. Þetta er tuttugasti og þriðji (23.) sigur KR-inga á tímabilinu og þær geta farið ósigraðar í gegnum tímabilið með einum lokasigri á Grindavík í seinasta deildarleiknum sem verður í Grindavík næsta þriðjudag (6. mars).
 

Tölfræðin lýgur ekki

Villurnar hölluðu aðeins á ÍR-inga í leiknum, en þær fengu 26 villur dæmdar á sig gegn 10 villum á KR. Skotnýting þeirra bláklæddu í leiknum var líka mjög slappur, en þær hittu aðeins úr 20% skota sinna á móti 40% hjá KR. ÍR-ingar náðu líka aðeins að skora 13 stig í seinni hálfleiknum.
 

Kjarninn

Þá er KR komið með deildarmeistaratitilinn og þær röndóttu geta byrjað að undirbúa sig fyrir úrslitakeppnina. Þær eiga einn leik eftir í deildinni gegn Grindavík sem að þær munu líklegast mæta í undanúrslita rimmunni og fá nokkurs konar æfingarleik við Grindavíkurstelpur í þessum seinasta deildarleik þeirra. ÍR-ingar eru ennþá reyndar með tölfræðilegan séns á að komast í úrslitakeppnina, en þær þyrftu að vinna báða leikina sína sem eru eftir og Grindavík þyrfti að tapa þremur seinustu leikjunum sínum. Kemur í ljós.

Til hamingju með deildarmeistaratitilinn, KR!
 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

"Þurfum að taka þetta allt í réttri röð."

"Þetta er ekki búið."

Umfjöllun / Sólrún Sæmundsdóttir
Viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson