KR sigraði Njarðvík með 89 stigum gegn 74 í fyrsta leik 8 liða úrslita Dominos deildarinnar. Næsti leikur er komandi mánudag í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

 

 

Fyrir leik

Fyrirliði KR-inga Brynjar Þór Björnsson varð fyrir því óláni að brotna á hendi í aðdraganda leiksins. Ljóst var því að liðið þurfti að bíta í skjaldarrendur og þjappa sér saman án hans, því ekki er ljóst hvort hann nær nokkurn þátt að taka meira þetta tímabilið.

 

KR sigraði báðar viðureignir liðanna í deildinni vetur. Þó ekki ýkja sannfærandi, með 8 stigum í DHL Höllinni, en 4 í þeim seinni í Ljónagryfjunni. Þá mættust þau einnig í bikarkeppninni, þar sem KR sigraði öllu öruggar, með 19 stigum.

 

Gangur leiks

Gestirnir úr Njarðvík mættu betur til leiks en heimamenn. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með tveimur stigum, 22-24. Í öðrum leikhlutanum helst staðan nokkuð jöfn, en KR kemst þó í smá forystu áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-41.

 

Kristófer Acox besti maður vallarins í fyrri hálfleiknum með 15 stig og 9 fráköst á meðan að Terrell Vinson dróg vagninn fyrir Njarðvík með 11 stigum og 5 fráköstum.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins fóru heimamenn svo á bensíngjöfina og litu aldrei til baka. Eru komnir í 18 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 71-53. Eftirleikurinn því, að er virtist, nokkuð auðveldur. KR sigraði leikinn svo að lokum með 15 stigum, 89-74.

 

 

Kaflaskiptin

Vendipunktur leiksins var klárlega upphaf seinni hálfleiksins. Þriðji leikhlutinn er líklegast eitthvað sem að Njarðvíkingar vilja gleyma. Fara frá því að vera aðeins 6 stigum undir og í nokkur spennandi leik, í það að vera að berjast við Íslandsmeistara síðustu fjögurra ára, á þeirra heimavelli og þegar mest lét, heilum 30 stigum undir.

 

Geitin

Fyrir hlutlausa augað var virkilega gaman að fylgjast með leik Jóns Arnórs Stefánssonar í kvöld. Ljóst var að liðið ætlaði að leita mikið til hans strax í upphafi leiks, en hann svaraði þeirri áskorun með stakri prýði. Spilaði einhverjar 22 mínútur, setti 21 stig (5/7 í þristum) og varðist vel hinumegin á vellinum (4 stolnir boltar)

 

 

Tölfæðin lýgur ekki

Njarðvík gekk skelfilega af gjafalínunni í kvöld. settu aðeins 7 skot niður þaðan úr 16 tilraunum (43%) Gekk betur hjá heimamönnum, sem settu 12 af 16 niður (75%)

 

Hetjan

Kristófer Acox var besti maður vallarins í kvöld. Á 22 mínútum spiluðum skilaði hann 19 stigum (75% skotnýting) 13 fráköstum, 4 stoðsendingum, 2 stolnum boltum og 2 vörðum skotum.

 

Kjarninn

KR er nú komið með fyrsta sigurinn af þremur sem þarf til þess að komast í undanúrslitin. Næsti leikur er í Njarðvík á mánudaginn og vilji Njarðvík ekki eiga það á hættu að vera sópað út úr úrslitakeppninni um miðja næstu viku í Vesturbænum, þá hreinlega verða þeir að vinna þann leik. Sýndu það svo sannarlega í fyrri hálfleik þessa leiks að þeir geta spilað við KR, því kannski spurning hvort þeir ná heilum góðum leik eftir helgina.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / Bára Dröfn

 

Viðtöl: