Fjórði og síðasti leikur Snæfells og Njarðvíkur á tímabilinu fór fram í Stykkishólmi í kvöld þar sem heimastúlkur sigruðu 84-71 eftir að staðan í hálfelik hafði verið 43-41. Kristen McCarthy var stigahæst með 33 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar en hjá Njarðvík var Shalonda Winton með tröllatvennu 26 stig og 23 fráköst.

Berglind Gunnarsdóttir var komin á ný í lið Snæfells en Alda Leif Jónsdóttir var ekki með liðinu í dag.  Leikurinn var eign Snæfells í byrjun og náðu þær að komast í 15-5 þar sem Njarðvík misnotuðu mý mörg sniðskot. Frákasta baráttan var Njarðvíkinga sem rifu í heildina 18 sóknarfráköst í leiknum. Heimaliðið leiddu 29-20 eftir fyrsta leikhluta og voru að fá framlag úr mörgum áttum. Í öðrum leikhluta voru Snæfell komnar 41-29 þegar um 3 mínútur voru eftir en baráttuglaðir gestirnir smelltu í 0-12 og jöfnuðu leikinn 41-41 áður en Gunnhildur Gunnars skoraði eftir sóknarfráköst og Snæfell leiddu 43-41 í hálfleik.  Kristen McCarthy var komin með 22 stig í fyrri hálfleik en Shalonda var með 16 stig.

 

Í þriðja leikhluta komu Snæfellsstelpurnar mjög grimmar til leiks gegn svæðisvörn gestanna og smelltu í 9-0 byrjun áður en Njarðvik náðu að koma stigum á töfluna.  Njarðvík skiptu mikið um varnarleik en Snæfell sigruðu leikhlutann 23-9 með frábærum varnarleik þar sem Andrea Björt gerði gríðarlega vel á hina öflugu Shalondu Winton en hún komst lítið áfram í leikhlutanum. Staðan eftir þrjá leikhluta 66-50.

 

Í fjórða leikhluta héldu Snæfell áfram að leiða leikinn og svöruðu áhlaupum Njarðvíkur með stórum körfum frá öllum leikmönnum liðsins og silgdu góðum sigri í höfn, lokatölur 84-71.

 

Snæfell sigruðu því í öllum fjórum leikjum liðanna í vetur en einn af þeim fór í framlengingu.  Njarðvíkingar eru enn án sigurs en það styttist í sigurleikinn hjá liðnu sem heldur áfram að berjast.  Snæfell komust í sjötta sætið upp fyrir Breiðablik og þrír leikir eftir af Dominosdeildinni.

 

Næsti leikur Snæfells er gegn Stjörnunni í Garðabæ á laugardag og sama dag fá  Njarðvíkurstúlkur Valsstúlkur í heimsókn.

 

Stigaskor Snæfells: Kristen McCarthy 33 stig, 7 fráköst, 5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 18 stig, 4 fráköst, 4 stolnir, 3 varin skot, Berglind Gunnarsdóttir 13 stig og 5 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 10 stig og 4 stoðsendingar, Andrea Björt Ólafsdóttir 4 stig, Júlía Scheving Steindórsdóttir 3 stig, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2 stig, Sara Diljá Sigurðardóttir 1 stig,  Thelma Lind Hinriksdóttir 0, Inga Rósa Jónsdóttir 0.

 

Stigaskor Njarðvíkur: Shalonda Winton 26 stig, 23 fráköst, Hulda Bergsteinsdóttir 12 stig, María Jónsdóttir 10 stig og 6 fráköst, Björk Gunnarsdóttir 6 stig og 6 stoðsendingar, Erna Freydís Traustadóttir 6 stig, Hrund Skúladóttir 5 stig, Ína María Einarsdóttir 4 stig, Ása Böðvarsdóttir 2 stig, Aníta Carter Kristmundsdóttir, Dagmar Traustadóttir.

Mynd/ Sumarliði