Íslandsmeistarar KR eru komnir í 2-0 forystu gegn Njarðvík í 8-liða úrslitum Domino´s-deildar karla eftir afgerandi 66-91 sigur í Ljónagryfjunni í kvöld. Vesturbæingar höfðu umtalsverða yfirburði á öllum sviðum leiksins í kvöld og má þess t.d. geta að Pavel Ermolinskij var einn með 15 stoðsendingar þetta kvöldið en allt Njarðvíkurliðið afrekaði aðeins 12 stykki allan leikinn!

KR-ingar voru ekkert að tvínóna við hlutina, leiddu 14-30 eftir fyrsta leikhluta og heimamenn áttu ekki séns. Kristófer Acox var með myndarlega tvennu eða 21 stig og 11 fráköst, Darri Hilmarsson bætti við 17 stigum (5-5 í teig) og Jón Arnór Stefánsson var með 14 stig og Pavel 9 stig og 15 stoðsendingar, KR í þessum ham er illviðráðanlegt!

Eftir fimm tilraunir bara á þessari leiktíð hefur Njarðvík ekki enn fundið lykilinn að því að leggja KR að velli, röndóttir unnu báða deildarleikina, hentu Njarðvík út í bikarnum og leiða nú 2-0 gegn þeim í úrslitakeppninni. Njarðvíkingar eiga bara einn séns eftir til þess að finna svarið við gátunni, ef það tekst ekki sjá þeir undir hælana á KR inn í undanúrslit en þriðji leikur liðanna er í DHL-Höllinni næstkomandi fimmtudag.

Terrell Vinson leikmaður Njarðvíkur var aðeins með 7 stig og 7 fráköst í kvöld og þykir það nú fremur dræmt á þeim bænum en það er svo sem ekkert leyndarmál í þessari seríu að hann er tekinn föstum tökum og fær lítið sem ekkert fyrir sinn snúð þrátt fyrir alla meðferðina. Það eitt og sér skýrir fjarri lagi stöðuna í seríunni, vandi Njarðvíkinga er sá að KR spilar mun fastar, missa aldrei fókus og mað lazer-sjón Pavels eru menn að fá virkilega góð skot eða fá boltann í auðum svæðum með gott aðgengi að körfunni. Þetta þyrftu Njarðvíkingar einna helst að moka fyrir til þess að geta byrjað að hugsa um sigur í DHL-Höllinni á fimmtudag en ef það var brekka fyrir kvöldið í kvöld þá er á sjálfan Everest að sækja um þessar mundir.

KR hitti vel í kvöld, 12 af 30 í þristum og þeir Kristófer og Darri voru saman 14-20 í teignum. Þá hefur verið gaman að sjá hvað þeir Vilhjálmur Kári, Þórir og Arnór eru að koma vel stilltir inn af bekknum. Einhverjir myndu segja að fremstu póstar KR væru búnir að afgreiða málin þegar þeir kæmu við sögu en það er ekkert sjálfgefið að menn komi kaldir inn og skili sinni vinnu vel í úrslitakeppninni eins og þeir hafa sýnt þessa tvo leiki.

Veðbankarnir allir hallast nú 99,9% að KR fyrir fimmtudaginn skyldi maður ætla og sú staðreynd gæti mögulega kveikt eitthvað í Njarðvíkingum en þeir þurfa að bregðast við hratt og mæta fátt annað en snælduvitlausir til leiks til að fá annan heimaleik þetta tímabilið. KR að sama skapi er farið að láta ansi vel í sér heyra þessi dægrin og fullt tilefni fyrir aðra til að byrja að skjálfa svolítið undan þeim.

Tölfræði leiksins