Hildur Sigurðardóttir þjálfari Breiðabliks tók fram skóna af hillunni í gærkvöldi með liðinu þegar þær mættu Njarðvík í 27. umferð Dominos deildar kvenna. Þetta var fyrsti leikur Hildar frá því vorið 2015 þegar hún lék með Snæfell. 

 

Hildur á að baki fimm Íslandsmeistaratitla með KR og Snæfell og var fjórum sinnum valin besti leikmaður efstu deildar kvenna. Hún er stoðsendingahæsti leikmaður úrvalsdeildar frá upphafi auk þess að vera leikjahæsti landsliðsmaður Íslands með 79 leiki. 

 

Leikstjórnandinn lék sex mínútur og skilaði tveimur stigum og fjórum stoðsendingum á þeim tíma. Nokkur meiðsli eru í hóp Breiðabliks þar sem Ísabella Ósk er nýjasta nafnið á meiðslalistann eftir höfuðhögg sem hún varð fyrir í sigrinum á Haukum um siðustu helgi. 

 

Því miður fyrir Breiðablik var spilamennska Hildar ekki nóg til að ná í sigur en Njarðvík vann leikinn 59-77. Þetta var einnig fyrsti sigur Njarðvíkur á tímabilinu. 

 

 

Mynd / Bjarni Antonsson