Fyrsta körfuknattleikshús landsins er nú óðar að taka á sig mynd og verður klárt fyrir Domino´s-deildinar strax á næstu leiktíð! Þetta staðfestir Ívar Ásgrímsson við Karfan.is en hann sagði einnig að núna næstu mánaðarmót myndu Haukaliðin hefja æfingar í húsinu.

„Öll önnur hús eru hönnuð þannig að handboltalínur eru aðalmálið og svo koma aðrar línur, þessi salur er aftur á móti hannaður fyrir körfubolta og er flottasti salur landsins,“ sagði Ívar við Karfan.is og slær hvergi af í aðdáun sinni á húsinu.

Það næst ekki að hefja keppni á þessari leiktíð þar sem m.a. áhorfendastúkur í salnum eru ekki fullkláraðar en miðað við meðfylgjandi mynd er salurinn ansi langt kominn og „svínlúkkar“ eins og krakkarnir segja (amk einhverntíman).

Engin leikklukka verður í nýja salnum, amk ekki leikklukka eins og við Íslendingar eigum að venjast, nei það verða LED skjáir sem munu sjá til þess að vallargestir geti fylgst grannt með stöðu, tíma, skori og fleiru.

Salurinn mun taka um 1000 gesti í sæti og svalir verða kringum völlinn sem munu bera hátt í 700 manns svo það ættu allir að fá gott sjónarhorn á leikinn.

Vafalítið mun þessi öfluga aðstaða veita Haukum enn frekari byr undir báða vængi sína og er nú flugið á þeim hátt fyrir þessi dægrin með karla- og kvennalið sín á toppum úrvalsdeildanna, búin að landa deildarmeistaratitli og á leið inn í úrslitakeppnina með blússandi meðbyr. Aðstaðan mun vafalítið gera önnur úrvalsdeildarlið græn af öfund en þá er bara að láta reyna á samtakamáttinn og nota Hafnfirðinga sem fordæmi og vinda sér í að hlaða í fleiri körfuboltahús.

Mynd/ Facebook-síða Hauka (Ármann Markússon) – Salurinn er stórglæsilegur eins og sést á myndinni sem fylgir þessari frétt.