KR tekur í kvöld kl. 19:15 á móti Njarðvík í fyrsta leik 8 liða úrslita Dominos deildarinnar.
KR-ingar að sjálfsögðu Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára, sem þessa úrslitakeppnina freista þess að verða fyrsta liðið til þess að vinna fimm titla í röð síðan að úrslitakeppnin var sett á. Eina liðið sem hefur unnið fjóra í röð, líkt og KR, er einmitt Njarðvík, en það gerðu þeir á níunda áratug síðustu aldar.
Eftir deildarkeppni þessa árs endaði KR í 4. sætinu á meðan að Njarðvík var í því 5. Munaði tveimur sigurleikjum, eða 4 stigum á því að Njarðvík næði KR.
KR sigraði báðar viðureignir liðanna í deildinni vetur. Þó ekki ýkja sannfærandi, með 8 stigum í DHL Höllinni, en 4 í þeim seinni í Ljónagryfjunni. Þá mættust þau einnig í bikarkeppninni, þar sem KR sigraði öllu öruggar, með 19 stigum.
Karfan spjallaði við þjálfara Njarðvíkur, Daníel Guðmundsson, um deildina, að vera kominn með liðið aftur í úrslitakeppnina og viðureignina við KR.