Valur sigraði Þór í 19. umferð Dominos deildar karla með 95 stigum gegn 86. Eftir leikinn eru liðin í sömu sætum og þau voru fyrir hann. Þór í því 9. með 14 stig, en Valur sæti neðar með 12.

 

 

Fyrir leik

Leikurinn gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. Þá sérstaklega Þór, sem að höfðu með góðum úrslitum eftir áramótin komið sér aftur í gott tækifæri á að ná inn í úrslitakeppnina. Fyrir Val var leikurinn mikilvægur til þess að endanlega tryggja sæti sitt í deildinni að ári liðnu.

 

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Þorlákshöfn sem að hófu leik kvöldsins betur. Eftir fimm mínútur voru þeir komnir 6 stigum yfir, 7-13. Þá tekur Valur leikhlé sem virðist hafa virkað, því það sem eftir lifði fyrsta fjórðungsins var leikurinn jafn. Endar þó 23-26 Þórsurum í vil.

 

Í upphafi annars leikhlutans komast heimamenn svo almennilega í gang. Á aðeins nokkrum mínútum ná þeir að byggja sér upp gott forskot með snörpu 20-6 áhlaupi. Því halda þeir svo til enda hálfleiksins, en þegar að leikmenn héldu til búningsherbergja var staðan 53-40 heimamönnum í vil.

 

Fyrir Val var Urald King atkvæðamestur í fyrri hálfleiknum með 17 stig og 8 fráköst á meðan að fyrir gestina var það Emil Karel Einarsson sem dróg vagninn með 10 stigum og 6 fráköstum.

 

Í seinni hálfleiknum nær Valur svo að berja frá sér hvert áhlaup gestanna á fætur öðru. Eftir þrjá leikhluta leiða þeir enn með 15 stigum, 78-63. Sigra svo leikinn að lokum með 9, 95-86.

 

Kjarninn

Valsarar hafa í ófá skiptin í vetur spilað þennan, eða svipaðan leik. Þar sem þeir virðast vera með tögl og haldir allan leikinn, en sigurinn hefur ekki skilað sér. Þetta var svo sannarlega ekki sá leikur. Eftir að hafa náð forystunni í 2. leikhlutanum litu þeir í raun ekkert til baka. Héldu í þá forystu sem þeir höfðu og settu niður stór skot þegar að þá virkilega vantaði. Munaði þar mikið um framlag rulluspilara þeirra, Benedikts, Odds, Þorgeirs, Illuga Steingríms, Gunnars Inga og Illuga Auðuns.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Valur vann frákasatbaráttuna í leik kvöldsins. Tóku 53 á móti aðeins 34 gestanna úr Þorlákshöfn.

 

Hetjan

Varamenn Vals voru frábærir í leik kvöldsins. Sérstaklega þeir Gunnar Ingi Harðarson og Illugu Steingrímsson. Erfitt þó að setja hetjustimpilinn á nokkurn annan en áðurnefndan Urald King, sem kláraði leikinn með 26 stigum, 15 fráköstum, 5 stoðsendingum og 5 vörðum skotum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / Torfi Magnússon

 

Viðtöl: