Valur tók á móti ÍR í kvöld á Hlíðarenda. Valsmenn höfðu tækifæri til að koma sér aðeins nær 8. sætinu og aðeins lengra frá 11. sætinu á meðan að Breiðhyltingarnir vildu koma sér upp úr holunni sem þeir hafa verið í undanfarna leiki. Gestina vantaði mínútuhæsta leikmanninn sinn, Matthías Orra Sigurðsson, á bekkinn en létu það ekki aftra sér í að sækja sigur í jöfnum og spennandi leik sem endaði að lokum 77-83 fyrir ÍR-ingum.
 

Gangur leiksins

Leikurinn hófst með góðu spili hjá Valsmönnum, en þeir voru komnir 7 stigum yfir eftir fjórar mínútur. Það hafði þó lítið að segja þar sem að ÍR-ingar hysjuðu upp um sig og tóku sitt eigið áhlaup til að minnka muninn. Liðin skildu jöfn eftir fyrsta leikhluta, 20-20. Gestirnir voru heldur kræfari í öðrum leikhlutanum og byggðu upp smá forskot með því að vera hreinlega duglegri en Valsarar. Heimamenn gátu þó minnkað muninn með góðu spili Urald King og fleiri leikmanna undir lok fyrri hálfleiks svo að staðan varð 41-44 fyrir ÍR þegar liðin héldu inn í búningsklefana sína.

Þriðji leikhlutinn var ágætur hjá báðum liðunum og en Völsurum tókst að jafna leikinn þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir í leikhlutanum. ÍR vöknuðu þá aðeins og gátu náð smá forystu á ný fyrir lokaleikhlutann en staðan eftir þriðja varð 63-66, þar sem bæði lið höfðu skorað 22 stig hvort. Áfram héldu liðin að skiptast á körfum og ÍR gat haldið í nauma forystu þar til á  lokamínútunum. Þegar rúmar tvær mínútur lifðu leiks jöfnuðu Valsmenn á ný og gerðu gott betur með rúma mínútu eftir, en þeir komust tveimur stigum yfir með vítaskotum Gunnars Inga Harðarsonar, 75-73. Þjálfari ÍR, Borce Ilievski, tók þá leikhlé og í framhaldinu skoruðu þeir bláklæddu 10 stig gegn 2 stigum heimamanna og leiknum lauk eins og áður sagði 77-83, ÍR í vil.
 

Þáttaskil

Í stöðunni 75-73 tóku ÍR-ingar leikhlé og réðu sínum ráðum. Í innkastinu sem að þeir fengu í framhaldinu leit út fyrir að sá sem sendi boltann inn á hefði ekki sent á neinn sérstakan og Valsmenn ættu innkast með rúma mínútu eftir. Urald King fékk hins vegar dæmt á sig hald á Ryan Taylor og í sókninni sem að hlaust af setti Kristinn Marinósson þriggja stiga körfu og í næstu tveim sóknum sóknum skilaði afmælisbarnið Sæþór Elmar Kristjánsson 4 stigum. Þar með var þetta orðið heldur erfitt fyrir Valsmenn og að lokum gátu þeir ekki nýtt tvö þriggja stiga skot til að jafna leikinn og neyddust til að byrja brjóta.
 

(laumu)Hetjan

Sæþór afmælisbarn fær hetjustimpilinn í kvöld þrátt fyrir að tölfræði hans sé ekki við fyrstu sýn upp á marga fiska. Hann skoraði 8 stig, tók 6 fráköst, gaf eina stoðsendingu og stal einum bolta. Ekki mergjuð statistík, en til þess verða menn að horfa á leikinn. "Sæsi" klikkaði ekki á skoti í leiknum (3 af 3 í tveggja stiga skotum og 2 af 2 í vítaskotum), tapaði engum bolta, skoraði 4 af 7 seinustu stigum liðsins, varði tvö mikilvæg skot í fjórða leikhlutanum (varði alls þrjú skot) og var næst framlagshæstur sinna manna með 19 framlagsstig á tæpum 24 mínútum (sá framlagshæsti, Danero Thomas, þurfti 30 mínútur til að skila 22 framlagsstigum). Sæþór átti mjóg lúmskan og góðan leik á afmælinu sínu og má vera sáttur við sitt. Sá besti í liði heimamanna var Urald King (25 stig, 19 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolnir boltar, 5 varin skot og 39 framlagsstig).
 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýtingin hafði sitt að segja í leiknum ásamt töpuðum boltum; ÍR settu fleiri skot í fleiri tilraunum (30/74 – 40.5%) en Valur (21/61 – 34.4%) svo að miklu betri vítanýting Valsmanna strokaðist eiginlega út. Valsmenn tóku 33 vítaskot í leiknum og nýttu 29 þeirra (87.4%) á meðan að ÍR fékk aðeins 20 vítaskot og nýttu einungis 14 þeirra (70.0%). Það hjálpaði Völsurum ekki heldur að þeir gátu ekki passað nógu vel upp á boltann, en þeir töpuðu 22 boltum í leiknum gegn 13 hjá ÍR. Til gamans má geta að þetta varð einn örfárra leikja þar sem að liðið með hærra framlag tapaði leiknum en Valur hafði 96 framlagsstig í leiknum gegn 95 framlagsstigum ÍR-inga.
 

Kjarninn

Valsmenn höfðu gott tækifæri til að vinna eitt besta lið deildarinnar aftur og voru m.a.s. í mjög svo heppilegri stöðu fyrst að ÍR vantaði tvo bakverði, þá Matthías Orra Sigurðsson og Daða Berg Grétarsson. Menn stigu upp og ÍR sluppu með skrekkinn í leik sem hefði hæglega getað farið á hinn veginn. Þá eru ÍR ennþá með í baráttunni um efsta sætið í deildarkeppninni og Valsmenn þurfa að vanda sig ef að þeir vilja ekki eiga á hættu að falla. Það er ljóst að ef að Þórsarar frá Akureyri geta náð sér í einn sigur eða jafnvel tvo í viðbót gætum við átt von á fallbaráttuleik á Akureyri 2. mars næstkomandi.
 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

"Það er ekkert sem að toppar þetta."

"Það er alveg ástæða fyrir því að við erum ofarlega."

"Þeir náðu að spila sjálfstraustið í sig."

Umfjöllun, mynd og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson