Eini leikurinn sem var spilaður á landinu í kvöld var milli ÍR og Fjölnis í 1. deild kvenna í Hertz-hellinum. Bæði lið spiluðu vel mest allan leikinn en slök skotnýting ÍR-inga ásamt töpuðum boltum skilaði sér í 9 stiga tapi gegn Fjölnisstúlkum, 51-60.
 

Gangur leiksins

Leikurinn hófst á því að liðin voru að skiptast á körfum og sóknarfráköstum framan af, enda skoruðu bæði lið ca. helming stiga sinna úr körfum eftir annað tækifæri (á ensku kölluð second chance points) í fyrsta leikhluta. Aníka Lind Hjálmarsdóttir, miðherji Fjölnis, fór fljótlega út af með 2 snöggar villur en varamaður hennar, Fanndís Sverrisdóttir kom öflug inn og hafði tekið 5 fráköst og skorað 2 stig áður en leikhlutinn var liðinn. Staðan 11-14, Fjölni í vil. 

ÍR-stelpur voru aðeins skarpari í öðrum leikhlutanum og voru áfram duglegar að sækja vítaskot, en þær tóku 10 víti í öðrum leikhlutanum og alls 19 víti í fyrri hálfleiknum. Það dugði þó ekki til að vinna fjórðunginn, en honum lauk 15-16 og Fjölnisstúlkur voru því yfir í hálfleik, 26-30. Það var til merkis um harða baráttu ÍR-inga að þær sóttu 11 villur í fyrri hálfleik á meðan að Fjölnir fiskaði aðeins 4 villur á fyrstu 20 mínútunum

Fjölnir mætti með öfluga maður á mann vörn í seinni hálfleiknum og ÍR-stelpur duttu alveg úr gír í nokkrar mínútur þangað til að Ólafur Jónas, þjálfari ÍR, tók leikhlé eftir að gestirnir höfðu skorað 7 stig í röð á tveimur mínútum. Breiðholtspíurnar gátu aðeins rétt af kútinn en þurftu að sætta sig við 9-14 leikhluta þar sem McCalle Feller, erlendur leikmaður, fór hamförum. Í þriðja leikhluta skoraði hún 4 stig, tók 2 fráköst, gaf 2 stoðsendingar, stal einum bolta og varði 3 skot. Bara jákvæð tölfræði í leikhlutanum; hvorki tapaður bolti né klikkað skot. Staðan 35-44 fyrir seinasta leikhlutann.

ÍR-ingar héldu áfram að harka og tókst eftir nokkrar mínútur að taka 8 stiga áhlaup til að minnka muninn í 5 stig þegar 2 mínútur voru eftir. Í næstu sókn klikkaði Feller á tveimur vítaskotum og heimastúlkur gátu komið muninum í 3 eða jafnvel 2 stig. Allt kom fyrir ekki og ÍR-ingar töpuðu boltanum án þess að ná skoti á körfuna. Fjölnisstúlkur settu þá í gírinn aftur og skoruðu næstu 7 stig í röð. Þær kláruðu leikinn síðan leikinn á vítalínunni og lokastaðan varð eins og áður sagði 51-60, Fjölni í vil.
 

Þáttaskil

Það urðu tvö þáttaskil í leiknum; fyrstu komu í þriðja leikhlutanum þegar Fjölnir kæfði ÍR með vörn sinni og seinni kom þegar ÍR-ingar höfðu með baráttu minnkað muninn í 5 stig og gátu komið muninum í 2-3 stig. McCalle Feller stal boltanum og í næstu sókn komst hún að körfunni og smellti sendingu út í horn í reiðubúnar hendur Berglindar Karenar Ingvarsdóttur sem setti þriggja stiga skot og kæfði þar með áhlaup heimamanna.
 

Hetjan

McCalle Feller, erlendur leikmaður Fjölnis, átti mjög góðan leik í kvöld og leiddi sitt lið til sigurs. Hún var aðeins tveimur stolnum boltum frá því að ná sér í 5×5 tölfræðina. 5×5 tölfræðin er þegar leikmaður nær í minnsta lagi 5 stig, fráköst, stoðsendingar, varin skot og stolna bolta, 5 í öllum 5 tölfræðiþáttum. Feller skoraði 18 stig, tók 8 fráköst, gaf 8 stoðsendingar, varði 5 skot og stal 3 boltum. Flott tölfræði þrátt fyrir það og hún var einnig framlagshæst í leiknum með 31 framlagsstig.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting ÍR-inga var mjög slök í leiknum í dag, en þær hittu aðeins úr 19 skotum af 67 utan af velli (28.4% nýting). Þriggja stiggja nýting þeirra var grátleg, en þær hittu ekki úr þristi fyrr en á lokamínútu leiksins í 15. tilraun þeirra fyrir utan þriggja stiga línuna (6.7%). Verst var þó vítanýtingin, en þær hittu aðeins úr 12 vítaskotum í 30 tilraunum (40%). Ef ekki hefði verið fyrir öll sóknarfráköst þeirra (24 talsins) hefðu þær tapað með miklu meiri mun. Þessi skotnýting ásamt 18 töpuðum boltum ÍR er til merkis um góða vörn Fjölnis, en þær skoruðu 14 stig úr töpuðum boltum hjá ÍR (ÍR skoruðu aðeins 5 stig úr töpuðum boltum Fjölnisstúlkna).
 

Kjarninn

Fjölnisstúlkur eru þá áfram í öðru sætinu og eru komnar í þann gírinn að búa sig undir úrslitakeppnina. Þær voru að prufa nokkra hluti í fyrri hálfleik og ætla sér augljóslega að hafa nóg í vopnabúrinu fyrir baráttuna um sæti í efstu deild kvenna á næsta ári. ÍR-ingar mega vera sáttar við leikinn sinn í kvöld þó að þær hafi hitt illa, en þær virtust alltaf vera í séns að ná Fjölni og kannski stela sigri. Þær verða augljóslega að bæta hugarfarið á vítalínunni og passa betur upp á boltann í leikjum ef að þær vilja reyna að komast fram fyrir Grindavík (sem er núna í 4. sæti) og komast í úrslitakeppnina.
 
Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bára Dröfn Kristinsdóttir

Viðtöl eftir leikinn:

"Við erum að fara undirbúa okkur fyrir úrslitakeppnina."

"Við héldum alltaf áfram og það var það sem hélt okkur inn í þessum leik."
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir