Breiðablik tók á móti Snæfell í Smáranum í öðrum leik liðanna eftir landsleikjahléið. Blikar höfðu unnið Njarðvík í Njarðvík á meðan að Snæfell hafði beðið lægri hlut fyrir Val. Snæfell hafði betur í leiknum eftir að Breiðablik upplifði einn versta skotleik sinn á tímabilinu. Lokastaðan varð 44-79.
 

Gangur leiksins

Breiðablik opnaði leikinn með fyrstu körfunni en heimastúlkur voru heldur daprar það sem eftir lifði leiks. Úr stöðunni 4-3 tók Snæfell áhlaup sem reyndist happadrjúgt, en gestirnir skoruðu 21 stig í röð áður en Blikar gátu svarað með seinustu körfu leikhlutans. 6-24 eftir fyrsta leikhluta.

Hrakfarir heimaliðsins áttu ekki eftir að skána í framhaldinu, en vörn Snæfellinga hélt allan leikinn. Þær náðu að verjast mjög vel gegn erlendum leikmanni Breiðabliks, Whitney Knight, sem komst aldrei í flæði í leiknum og í raun var engin nema Isabella Ósk Sigurðardóttir og Hafrún Erna Haraldsdóttir með lífsmarki í leiknum fyrir Blikana. Breiðablik skoraði aðeins einu stigi meira en Snæfell í einum leikhluta en lét valta yfir sig í hinum þremur með samanlagt 34 stigum. Lokastaðan varð 44-79, Snæfell í vil.
 

Tölfræði leiksins

Breiðablik hitti einstaklega illa í kvöld og virtist ekki geta keypt sér þriggja stiga körfu, en heimaliðið hitti ekki úr einum þristi í 21 tilraunum í öllum leiknum. Á heildina hittu Blikastelpurnar aðeins úr 16 skotum af 67 utan af velli (24%). Snæfell hitti nokkuð vel úr sínum skotum (45% skotnýting á heildina) og voru duglegari að vinna saman í sókninni (19 stoðsendingar gegn 11 hjá Blikum).
 

Hetjan

Kristen McCarthy fékk það verkefni að slökkva á Knight hjá Blikum og henni tókst það nokkuð vel; Knight skoraði aðeins 13 stig, þurfti 22 skot og 4 vítaskot til þess og lauk leik með 7 framlagsstig. Kristen tókst á sama tíma að skora 28 stig, taka 11 fráköst, gefa 3 stoðsendingar, stela 3 boltum og verja eitt skot hjá Whitney. Kristen lauk leik með 30 stig í framlag, 37 í plús/mínus tölfræði og er ótvíræð hetja leiksins. 
 

Kjarninn

Snæfellsstúlkur mættu undirbúnar og náðu að takmarka Whitney Knight vel og taka Breiðablik út úr flestum þeirra sóknaraðgerðum. Sóknarlega gekk næstum allt upp hjá gestunum og þær voru augljóslega tilbúnar að berjast fyrir boltum og keyra á heimastúlkur. Breiðablik er þá í næst neðsta sæti deildarinnar með 9 sigra og Snæfell er í því fimmta með 9 sigra sömuleiðis. Nú þegar heil umferð er eftir, 7 leikir talsins, skiptir miklu máli að vinna sem flesta leiki til að eiga séns á seinasta sætinu í úrslitakeppninni. 
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bjarni Antonsson
 
Viðtöl eftir leikinn:
"Mig langar í úrslitakeppnina. Ég vona að það séu fleiri með mér í því."

[Viðtalið sem var tekið við Inga Þór fór því miður forgörðum.]
 

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson