Helsta vonarstjarna íslensks körfubolta Tryggvi Snær Hlinason verður í eldlínunni í Euroleague í kvöld þegar Valencia heimsækir stórliði Olympiacos í Grikklandi. Olympacos eru í öðru sæti Euroleague þessa stundina og því um verðugan andstæðing að ræða. 

 

Mikilvægt ferðalag býður svo Tryggva til Íslands svo gott sem um leið og leik lýkur í Grikklandi. Þar sem Tryggvi er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Finnlandi innan við sólarhring eftir að flautað verður til leiks loka í Euroleague leik kvöldsins. 

 

Um fátt annað hefur verið rætt og ritað síðustu daga heldur en mögulega þátttöku Tryggva Snæs í leiknum á föstudag gegn Finnlandi. Það er því ekki úr vegi að taka saman helstu þætti málsins.

 

Samkvæmt Arnari Guðjónssyni aðstoðarþjálfara landsliðsins er gert ráð fyrir að Tryggvi lendi um kl 16:00 á föstudag. „Það verður að koma í ljós hvernig hann hefur það og hvernig ferðalagið leggst í hann. Hann nær ekki einni æfingu með liðinu fyrir leikinn gegn Finnlandi. Finnar auðvitað eru góðir að sækja á stóra menn og það mun líka koma í ljós hvernig leikurinn mun spilast.“ sagði Arnar í viðtali við Karfan.is

 

Tryggvi verður því aldrei kominn í Laugardalshöllina fyrr en í fyrsta lagi tveimur tímum fyrir leik og ljóst að hann tekur ekki þátt í æfingu fyrir leikinn gegn Finnlandi. Auk þess er ekki einfalt mál að ferðast í flugvélum fyrir mann sem er 2,18 m á hæð og því verður fróðlegt að sjá hvernig Tryggvi mætir stemmdur til leiks. 

 

Craig Pedersen þjálfari hefur sagt í öðrum fjölmiðlum að það sé algjörlega óljóst hvernig þátttöku Tryggva verður háttað í þessum leik. Í viðtali við Vísi.is sagði hann að það væri ekki sanngjarnt gagnvart liðinu og Tryggva sjálfum að koma beint í leik eftir að hafa ekki náð æfingu með liðinu. En í samtali við Fréttablaðið segir hann að taktískar ástæður liggi einnig að baki. Það er að Tryggvi henti ekki eins vel gegn Finnlandi en hann geri gegn Tékkneska liðinu. 

 

 

Miðasala er hafin á leikina á Tix.is en Karfan.is er í gjafastuði á Facebook og er að gefa miða. Leikurinn gegn Finnlandi er á föstudagskvöld kl 19:45 en leikið er gegn Tékklandi á sunnudag kl 16:00. 

 

Eins og alltaf fer umræðan ansi hátt á Twitter þar sem menn eru almennt ekki sammála. Hér að neðan má sjá nokkra helstu punkta umræðunnar: