Heil umferð fer fram í Domino´s-deild kvenna í kvöld og hefjast allir fjórir leikirnir kl. 19:15. Toppliðin Haukar og Valur leika bæði á útivelli en Haukar heimsækja Stjörnuna í Garðabæ og Valur mætir Breiðablik í Smáranum. Bæði Haukar og Valur hafa 32 stig þegar alls 14 stig eru eftir í pottinum og Keflavík á því enn góðan möguleika á því að gera atlögu að deildarmeistaratitlinum en Keflvíkingar eru í 3. sæti með 28 stig.

Leikir kvöldsins í Domino´s-deild kvenna, 19:15:

Stjarnan – Haukar
Skallagrímur – Njarðvík
Keflavík – Snæfell
Breiðablik – Valur

Nú þegar 21 umferð er lokið í Domino´s-deild kvenna er það Carmen Tyson-Thomas sem leiðir deildina í stigaskori með 33,86 stig að meðaltali í leik og Hólmarinn Kristen McCarthy er ekki þar langt á eftir með 30,48 stig að meðaltali í leik. Keflvíkingurinn Brittanny Dinkins leiðir deildina í stoðsendingum með 10,05 stoðsendingar í leik og Shay Winton hjá Njarðvík leiðir deildina í fráköstum með 17,11 fráköst að meðaltali í leik. Í framlegð er það Carmen Tyson-Thomas sem trónir á toppnum með 37,29 framlagsstig að jafnaði í leik.

Þá eru einnig tveir leikir í 2. deild karla í kvöld en kl. 19:00 mætast Sindri og Ármann á Höfn og Njarðvík b tekur á móti Reyni Sandgerði kl. 19:30 í Akurskóla í Njarðvík.