Tómas Þórð ættu allir körfuboltaáhugamenn að þekkja nú þegar og hann minnti á sig með frábærum leik í kvöld:

 

Geggjaður leikur hjá þér og liðinu í kvöld! Það þarf kannski engan snilling til að sjá að þið lögðuð áherslu á að loka teignum í kvöld?

 

Já takk fyrir, í rauninni var planið bara að láta Hlyn taka Ryan einn á einn að mestu og hjálpa lítið á hann. Hlynur getur dekkað hvaða stóra mann sem er í deildinni. Við gátum þá passað okkur á því að falla ekki af eitruðu skyttunum eins og Danero og Kidda.

 

Einmitt, og þetta plan gekk í raun algerlega upp í kvöld.

 

Já, og það gekk í raun allt upp. Við vorum að hitta vel og allir áttu bara góðan leik.

 

Þú sjálfur tókst svo alveg svakalegan sprett, settir 8 stig á einni mínútu eða eitthvað slíkt og 13 í leikhlutanum.

 

Jájá, en svo var ég nú frekar kaldur eftir það, kláraði kvótann þar!

 

Jújú en þessi sprettur gerði eiginlega útslagið, hann kom ykkur í forystu sem þið létuð aldrei af hendi.

 

Það var mjög kærkomið að halda því og sigra, við drulluðum upp á bak á móti Þór í síðustu umferð og þurftum að vinna þennan leik. Við höfum ekki verið í neinu frábæru stuði í deildinni svo það var fínt að taka þennan.

 

Það er leiðinlegur frasi að tala um stöðugleika en er það ekki einfaldlega málið, hann vantar alveg hjá ykkur?

 

Það er bara algerlega málið, við erum örugglega óstöðugasta liðið í deildinni. Unnum KR fyrir jól, töpuðum svo sex í röð, unnum svo nokkra í röð og þetta hefur bara verið mjög skrýtið tímabil. 

 

En aðal keppnin er nú eftir, úrslitakeppnin, svo það er enn tími til að leita að stöðugleikanum.

 

Já nákvæmlega! Það er öllum drullusama um deildarkeppnina hvort sem er!

 

Meira um leikinn hér

 

Viðtal / Kári Viðarsson