Ísland mætir Tékklandi í undankeppni HM 2019 í dag. Leikurinn er sá fjórði í riðlakeppninni en Ísland vann síðasta leik sinn gegn Finnlandi síðasta föstudagskvöld. Leikurinn verður síðasti landsleikur Loga Gunnarssonar fyrir Íslands hönd en hann hefur ákveðið að leggja landsliðsskónna á hilluna eftir þennan landsleikjaglugga. 

 

Logi Gunnarsson lék sinn fyrsta landsleik árið 2000 og hefur því leikið fyrir Íslands hönd í 18 ár. Hann á að baki 146 landsleiki og hefur skorað yfir 1400 stig í þeim. Logi er fjórði leikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi en Guðmundur Bragason er leikjahæstur með 169 landsleiki.

 

Logi lék sinn fyrsta landsleik gegn Noregi á Norðurlandamótinu árið 2000. Í umfjöllun DV fyrir mótið 1. ágúst 200 var fjallað um þá ungu leikmenn sem komu inní A-landsliðið fyrir þetta verkefni. Þetta voru þeir Jón Arnór Stefánsson, Jakob Örn Sigurðarson, Sævar Sigmundsson og auðvitað Logi Gunnarsson. 

 

Leikið var í Keflavík en þetta mót er mjög eftirminnilegt í minnum körfuboltafólks. Fyrsti landsleikur Loga fyrir Íslands hönd endaði með ansi öruggum sigri Íslands á Noregi 92-66. Logi lék nokkuð stórt hlutverk í leiknum, skoraði sex stig og gaf tvær stoðsendingar. 

 

Herbert Arnarson var stigahæstur í Íslenska liðinu með 18 stig en til gamans má geta að hann var í hlutverki sérfræðings í útsendingu RÚV á leik Íslands og Finnlands síðasta föstudagskvöld. Í liðinu voru einnig leikmenn á borð við Fal Harðarson, Gunnar Einarsson, Friðrik Stefánsson, Jón Arnar Ingvarsson, Fannar Ólafsson og Baldur Ólafsson svo einhverjir séu nefndir. 

 

Í umfjöllun DV um leikinn þann 2. ágúst 2000 segir að baráttan hafi verið mikil hjá Íslenska liðinu, hungrið og ákafinn hafi skinið úr augum leikmanna. Í viðtali við Morgunblaðið þennan sama dag sagði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari A-landsliðsins á mótinu eftirfarandi: „Ég er einnig mjög ánægður með ungu leikmennina sem lék skínandi vel og gefur frammistaða þeirra tilefni til mikillar bjartsýni hvað framtíðina varðar,"

 

Segja má með sanni að Friðrik Ingi hafi verið ansi sannspár þegar hann lét þessi orð útúr sér því nú átján árum seinna eiga þrír af fjórum nýliðum á þessu móti farsælan landsliðsferil að baki. Það sem meira er hafa þessir leikmenn verið í lykilhlutverkum er Íslenska landsliðið lék á tveimur stórmótum í röð (Eurobasket 2015 og 2017). 

 

Logi Gunnarsson rifjaði upp þetta fyrsta landsliðsverkefni sitt í viðtali við Karfan.is árið 2016.  „Það var rosa spennandi að vera svona ungur og fá að komast í A-landsliðið. Sérstaklega að fá að gera það með svona félögum eins og Jón Arnóri og Jakobi (Sigurðssyni). Þarna spilaði maður með mörgum kempunum sem maður horfði á þegar maður var gutti.“ sagði Logi

 

Ísland tefldi fram tvem liðum þetta árið, A-landsliði og svokölluðu Elítuliði þar sem yngir leikmenn voru valdir. Elítan vann innbyrgðisleik liðanna og hafa landsliðsmenn fengið að heyra af því síðustu árin.

 

„Við þrír sem vorum ungir létum þetta ekki mikið fara í taugarnar á sér þar sem við vorum valdir á undan hinum í A-landsliðið. Þetta fór meira í eldri leikmennina við sem yngri vorum létum þetta ekki fara mikið í okkur.“

 

Átján árum og 147 landsleikjum síðar er Logi að leggja landsliðsskóna á hilluna. En Logi viðurkenndi að mikil breyting hafði orðið á liðinu á þessum tíma. „Standardinn hefur hækkað og gæði körfuboltans hafa breyst frá því ég byrjaði. Við höfum svo margir verið að spila erlendis lengi. Með fullri virðingu fyrir því hvernig þetta var á sínum tíma en þá voru bara ekki svo margir sem voru fullatvinnumenn.“

 

Logi ræddi við blaðamann Karfan.is í aðdraganda landsleikjanna þar sem hann sagði það forréttindi að spila með liðinu í þennan tíma. Auk þess sem hann sagðist ætla að njóta hvers augnabliks í þessum síðustu leikjum. Viðtalið má finna hér að neðan:

 

Leikurinn fer fram í Laugardalshöll kl 16:00 í dag. Búist er við hörku stemmningu og vonast eftir fullu húsi til að hjálpa strákunum að sækja sigur og kveðja Loga Gunnarsson. Miðasala er hafin á Tix.is. 

 

Myllumerki dagsins er #TakkLogi. 

 

 

Heimildir: Tímarit.is

Mynd: Skjáskot af forsíðu íþróttahluta DV þann 1. ágúst 2000. 

Samantekt: Ólafur Þór Jónsson