Ísland mætir Svartfjallalandi í undankeppni Eurobasket 2019 í kvöld. Leikurinn fer fram kl 18:00 í Svartfjallalandi. Liðin mættust einnig í nóvember þar sem Svartfjallaland hafði 84-62 sigur í Laugardalshöll. 

 

Hin magnaða Anna María Sveinsdóttir fylgist að sjálfsögðu vel með íslenska liðinu og styður það. Önnu Maríu ættu allir að kannast við en hún á að baki 60 landsleiki og er næst stigahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi. 

 

Við fengum hana til að ráða í leikinn sem er framundan í kvöld og skoða hverjir möguleikar Íslands eru gegn þessari ógnarsterku körfuboltaþjóð. 

 

„Ég held því miður að við eigum ekki mikla möguleika á móti Svartfjallalandi í dag, það er klassa munur á þessum liðum. Mér finnst liðið okkar ekki mjög sannfærandi um þessar mundir, ef við ætlum að eiga einhvern séns í þessi lið verðum við að stilla upp okkar allra sterkasta liði og hitta á toppleik hjá fleirum en Helenu og Hildi Björgu. Þær eru þær einu sem eru að gera eitthvað í sókninni hinar eru bara áhorfendur stundum, það er ekki að gera sig þegar þú ert að spila með landsliði.“ 

 

„En liðið í dag er mjög efnilegt og margar ungar stelpur sem eru að stíga sín fyrstu skref og lofa góðu fyrir framtíðina en þær verða að nýta sénsinn, gera meira og þora, öðruvísi verða þær ekki betri. Þær eru að gera mjög góða hluti í deildinni hér heima eins og Þóra, Dýrfinna, Rósa og fleiri ég vil sjá þær fara á fullum krafti í leikinn. Ef við náum að spila góða vörn og fá fleiri til að "taka þátt í sókninni" þá getum við alveg gert þeim lífið leitt en ég held að þær séu of sterkar til að við náum að sigra…. en allt getur gerst….. Áfram Ísland !!“