Þór Þ vann í kvöld nokkuð óvæntan sigur á ÍR í Breiðholtinu. Þór var alltaf í bílstjórasætinu en ÍR kom til baka og gerði tilraun til að stela sigrinum í lokin. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Frábær vörn Þórs kom þeim í forystu snemma í leiknum. Liðið lét ÍR hafa ansi mikið fyrir öllum hlutum á vellinum sem hitti ansi illa í byrjun. Þórsarar virtust mun tilbúnari í slaginn en oft áður í vetur en staðan eftir fyrsta leikhluta var 13-17. 

 

ÍR gekk virkilega illa að koma stigum á töfluna í byrjun annars leikhluta. Ólafur Helgi fór fyrir varnarleik Þórs sem var til hreinnar fyrirmyndar. ÍR var einungis með þrjú stig fyrstu fimm mínútur leikhlutans. 

 

Ryan Taylor spilaði einungis sex mínútur í fyrri hálfleik en hann fékk þrjár villur á þessum tíma og fékk fyrir vikið bekkjarsetu. Þetta nýtti Þór sér vel en staðan í hálfleik var 27-36 og hlutirnir litu mun betur út hjá gestunum. 

 

Heimamenn gerðu sig líklega til að koma til baka um miðbik þriðja leikhluta með fínu áhlaupi. Þórsarar svöruðu hinsvega vel með stórum þriggja stiga körfum þar sem Davíð Arnar fór fyrir liðinu. Staðan eftir þriðja leikhluta var 46-60 fyrir Þórsurum og stemmningin ekki með ÍR ingum fyrir lokafjórðunginn. 

 

Þegar átta mínútur voru eftir setti Hákon Örn þriggja stiga körfu og víti að auki. Þá snerist leikurinn algjörlega á band ÍR. Baráttan kviknaði hjá liðinu og unnu breiðhyltingar fyristu sjö mínútur fjórðungsins 16-2. 

 

Eftir æsilegar lokamínútu þar sem liðin skiptust á að ná forystu tókst Þór að setja stóru skotin til að vinna leikinn. DJ Balentine setti risa þrist sem fór langt með leikinn en ÍR tókst ekki að sigla sigrinum heim. Lokastaðan var 68-70 fyrir Þór Þorlákshöfn í Hertz hellinum. 

 

Hetjan: 

 

Ólafur Helgi Jónsson fær þessa útnefningu í dag. Hann endaði með 15 stig, 8 fráköst og tvo varða bolta. Það er þó ekki ástæðan fyrir því að hann var maður leiksins. Heldur var það ótrúlegur varnarleikur hans. Hann var óþreytandi á varnarenda og sýndi fyrirmyndar baráttu. Chaz Williams heillaði undirritaðan nokkuð í leiknum, hann kom með mikinn hraða sem ÍR réð illa við auk þess að hitta vel úr skotum sínum. Aftur á móti tapaði hann full mörgum boltum og fékk á sig klaufalegar villur. 

 

Kjarninn: 

 

ÍR hefur nú tapað tveimur heimaleikjum í röð og það gegn liðunum í áttunda og níunda sæti. Liðið sem var búið að búa til óvinnandi vígi í Seljaskóla þarf heldur betur að líta í eigin barm og átta sig á  hvað hefur farið úrskeiðis. Baráttan og liðsandinn sem hefur einkennt liðið hingað til var ekki til staðar á löngum köflum í leiknum. 

 

Þór Þ átti sigur skilið úr leiknum í dag. Varnarleikur liðsins var ógnarsterkur fyrstu þrjá leikhlutanna og leit á tímabili út fyrir að ÍR kæmist varla yfir 50 stigin í leiknum. Þórsarar eru nú fjórum stigum frá úrslitakeppnissæti og möguleikinn því til staðar. Mun meira jafnvægi er komið á liðið og munar þá mikið um innkomu Snorra Hrafnkellsonar eftir veikindi. Spurningin er bara hvort þetta sé of lítið of seint hjá Þór, þegar einungis sex leikir eru eftir af deildarkeppninni. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn