Þórsstúlkur gulltryggðu þriðja sætið í deildinni með sigri á Grindavík í dag og tölfræðilega á liðið enn möguleika á að taka annað sætið, þegar liðið á þrjá leiki eftir í deildinni.

 

 

Leikurinn í dag var öllu jafnari en leikurinn í gær þar sem gestirnir sáu aldrei til sólar og máttu sætta sig við 30 stiga tap. Augljóst var á leik gestanna í upphafi leiks að þjálfarateymi þeirra hefur heldur betur lesið leikmönnum pistilinn og gert þeim grein fyrir að ekki væri í boði spilamennska eins og í fyrri leiknum sem fram fór í gær.

 

Grindvíkingar hófu leikinn af miklum krafti og ljóst að leikmenn ætluðu að selja sig dýrt og ef tap yrði niðurstaðan skildu Þórsstúlkur þurfa hafa fyrir hlutunum. Fyrsti leikhluti var jafn og spennandi og liðin skiptust á að hafa forystuna og munurinn 3-5 stig. Þór vann leikhlutann með einu stigi 21-20.

 

Þórsstúlkur komu mun ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta, liðið þétti vörnina og sóknarleikurinn var markvissari og skilaði 26-18 sigri í leikhlutanum og leiddu í hálfleik með 9 stigum 38-47.

 

Hálfleiksræðan hjá Helga þjálfara hafði greinilega góð áhrif á Þórsliðið því þriðji leikhlutinn var Þórs frá upphafi til enda og þar var í raun lagður grunnurinn af öruggum sigri liðsins á Grindvíkingum. Liðið með þær Heiður Hlín, Rutar og Unni Láru í farabroddi áttu gestirnir engin svör við leik liðsins. Þór vann leikhlutann 25-11 og hafði 23 stiga forskot þegar lokaspretturinn hófst 72-49.

 

Hvort sem því var um að kenna að þær Gréta Rún og Unnur Lára fengu báðar fimm villur í fjórða leikhluta eða bara kæruleysi þá náðu gestirnir að rétta ögn hlut sinn áður en yfir lauk. Þór skoraði aðeins 9 stig í fjórða leikhluta gegn 14 gestanna. Þór vann leikinn með 18 stigum 81-63.

 

Þórsliðið í heild spilaði vel í dag en engin þó betur en Heiða Hlín sem fór á kostum og skoraði 28 stig tók 6 fráköst og var með 2 stoðsendingar. Þá var Rut Herner mjög góð og skoraði 19 stig og tók 10 fráköst, Unnur Lára var einnig stórgóð og skoraði 15 stig tók 16 fráköst og var með 9 stoðsendingar. Hrefna átti fínan leik og var með 10 stig og 5 fráköst, Sædís Gunnars 4 stig, Erna Rún 3 stig og Karen Lind með 2 stig.

 

Grindavík spilaði mun betur í dag en í gær og veitti heimastúlkum meiri mótspyrnu sem dugði þó ekki til. Bestar í liði gestanna voru þær Natalía Jenný og Halla Emilía með 16 stig hvor og báðar með 8 fráköst. Þá voru þær Elísabet María og Svanhvít Ósk með 8 stig hvor, Angela Björg og Andrea Björk 3 stig hvor og Jenný Geirdal 2.

 

Eftir sigra helgarinnar er Þór sem fyrr í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig, aðeins tveim stigum á eftir Fjölni sem er í öðru sætinu.

 

Þórsliðið á þrjá leiki eftir í deildinni, þ.e. tvo heimaleiki gegn Fjölni sem fram fara 9. og 10. mars auk frestaðs leik gegn KR. Enn er ekki er komin dags- og tímasetning á þann leik, það er einnig heimaleikur Þórs.

 

Tölfræði leiks

 

Myndaalbúm laugardagsleik 

Myndaalbúm sunnudagsleik 

 

Myndir & umfjöllun / Palli Jóh

 

Viðtöl: