18-5 / 22-12 / 18-4 / 8-15

 

Þórsstúlkur unnu næsta auðveldan sigur á Grindavík þegar liðin mættust í Síðuskóla fyrr í dag en lokatölur urðu 66-36.

 

Helgi Rúnar þjálfari Þórs lofaði fyrir leikinn í dag að áhorfendur fengju eitthvað nýtt að sjá annars vegar og hins vegar hörkuleik. Fyrra loforðið stóðst en ekki varð um hörkuleik að ræða þar sem yfirburðir Þórs voru einfaldlega of miklir. En loforð Helga um að áhorfendur fengju eitthvað nýtt að sjá stóðst því ,,nýr“ leikmaður hoppaði inn á völlinn í dag og rifjaði upp ,,gamla“ takta. Þetta var Rut Herner Konráðsdóttir  sem þrátt fyrir ungan aldur er hokin af reynslu. Rut lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil en tók þá niður aftur og komin á fullt.

 

Þór tók leikinn strax í sínar hendur og eftir fyrsta leikhlutann var munurinn á liðunum 13 stig 18-5. Og sama var uppi á teningunum í öðrum leikhluta þar sem leikmenn Þórs héldu áfram að þjarma að gestunum og juku muninn jafnt og þétt. Þór vann leikhlutann 22-12 og leiddi með 23 stigum í hálfleik 40-17.

 

Áfram heldu ófarir gestanna og fátt gekk upp hjá þeim, hittni slök og allt of margir tapaðir boltar og það nýttu Þórsstúlkur sér. Grindvíkingar skoruðu aðeins 4 stig í þriðja leikhluta gegn 18 Þórs og þegar fjórði leikhlutinn hófst var forskotið komi í 37 stig 58-21.

 

Gestirnir tóku á lokakaflanum að bíta ögn frá sér en um leið fóru stelpurnar okkar að vera full kærulausar og stundum eins og þær ætluðu að skora fleiri en eina körfu í sókn. Þór náði þó snemma 39 stiga forskoti en þá kom fínn kafli hjá gestunum sem söxuðu ögn á forskotið en leikurinn í raun löngu tapaður og endaspretturinn kom allt of seint og ekki nægilega beittur. Gestirnir unnu leikhlutann með 9 stigum 8-15 en 30 stiga stórsigur Þórs staðreynd og lokatölur 66-36.

 

Með sigrinum er staða Þórs í þriðja sætinu afar sterk. Liðið er nú með 26 stig og á 8 stig á Grindavík sem er í þriðja sætinu.

 

Stig Þórs í dag: Unnur Lára 17 stig 9 fráköst og 5 stoðsendingar, Sædís Gunnarsdóttir 16 stig og 7 fráköst,  Heiða Hlín 12 stig og 7 fráköst, Gréta Rún og Hrefna 5 stig hvor, Rut Herner 4 stig 5 fráköst og 5 stoðsendingar og þá voru þær Kristín Halla, Karen Lind og Særós allar með 2 stig hver og Erna Rún 1 stig 8 fráköst og 6 stoðsendingar.

 

Stig Grindvíkinga; Angela Björg 9 stig, Svanhvít Ósk 8, Thea Ólaffía og Halla Emilía 6 stig hvor, Elísabet María, Jenný Geirdal og Emelía Ósk 2 stig hver og Natalía Jenný 1 stig.

 

Tölfræði leiks 

Staðan í deildinni 

 

Liðin mætast svo öðru sinni á morgun, sunnudag og hefst leikurinn klukkan 13:00