Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Val i Domino‘s deild karla. Fyrir leikinn var Stjarnan í 7. sæti deildarinnar með 16 stig, en Valsarar í því 10. með 10. Jafnt var á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik og voru heimamenn þremur stigum yfir í hálfleik, 41-38. Stjörnumenn komust ellefu stigum yfir í fjórða leikhluta, en Valsarar gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í þrjú stig, 87-84 þegar tæpar þrjár mínútur lifðu af leiknum. Nær komust gestirnir hins vegar ekki og sigldu Garðbæingar sigrinum í höfn með sex stigum, 93-87.

 

Lykillinn

 

Stjörnumenn náðu að standa af sér áhlaup Vals sem áður hefur verið fjallað um. Stjörnumenn höfðu leitt frá öðrum leikhluta og unnu verðskuldað í lokin. Gestirnir voru þó ekki langt frá því að komast aftur inn í leikinn og hefur sennilega farið um marga Stjörnumenn, sem muna eftir tapi í fyrri leik liðsins gegn Val, þar sem Stjarnan missti niður svo gott sem unninn leik á lokasekúndunum. Heimamenn náðu í þetta skiptið að halda haus og sigurinn því þeirra.

 

Hetjan

 

Darrell Combs, nýr leikmaður Stjörnunnar, var frábær í kvöld. Combs spilaði 18 mínútur og var á þeim með 26 stg, þar af 5 þrista úr sjö tilraunum. Það lítur út fyrir að Stjarnan hafi fengið gæðaleikmann til sín í Combs og verður spennandi að sjá hvernig hann heldur áfram með liðinu.

 

Framhaldið

 

Stjarnan er eftir sigurinn í 7. sæti deildarinnar með 18 stig, en Valsarar eru enn í 10. sæti með 10 stig. Næst spilar Stjarnan gegn Þór frá Akureyri fyrir norðan sunnudaginn 11. febrúar, en Valur spilar næst á heimavelli gegn ÍR mánudaginn 12. febrúar.

 

Tölfræði leiksins

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Elías Karl Guðmundsson