Toppliðið fékk Stjörnumenn í heimsókn í 16. umferð deildarinnar í kvöld. Það hefur gengið á ýmsu hjá gestunum í vetur en þeir sitja í 7. sætinu, 10 stigum á eftir toppliðinu. Í fyrri leik liðanna höfðu ÍR-ingar 5 stiga sigur í Ásgarði og spennandi að sjá hvort Stjörnupiltar gætu svarað fyrir sig í Hellinum.

 

Spádómskúlan: Í kúlunni að þessu sinni má greinilega sjá hvert Stjörnuhrapið á fætur öðru. Þetta er vægast sagt klén myndhverfing hjá kúlunni góðu en það sem bjargar þessu er að atburðarásin er sýnd aftur á bak og himinhvolfið fyrir ofan Ásgarð fyllist smátt og smátt af skærum stjörnum. Þetta þýðir að Stjarnan mun sigra óvænt með 78 stigum gegn 70.

 

Þáttaskil

 

Stjörnumenn virtust alls óhræddir i byrjun leiks og landsliðsfyrirliðinn var heitur í byrjun. Skotval heimamanna var afleitt en í sömu andrá má sannarlega hrósa vörn Stjörnumanna. ÍR-ingar náðu þó að rífa sig svolítið upp, einkum varnarlega og leiddu 20-16 eftir fyrsta fjórðung. Það var heimamönnum til happs að Garðbæingar gættu ekki nægilega vel að boltanum og töpuðu 6 boltum í leikhlutanum.

 

Stjörnupiltar bættu sinn leik heldur betur í öðrum leikhluta. Þeir hættu þeirri vitleysu að tapa boltanum, lokuðu teignum enn betur og heimamenn gátu varla keypt körfu. Þessu fylgdi svo allsvakalegt þristaregn. Egill Agnar setti einn í fyrstu sókninni en Tómas Þórður skrúfaði svo frá í botn og setti 13 stig í leikhlutanum! Róbert tók við keflinu og bætti tveimur við. Sóknarleikur ÍR-inga var ráðleysislegur og Stjarnan var með ágætt 35-47 forskot í hálfleik.

 

Satt best að segja var þriðji leikhluti þessa leiks einn af þeim leiðinlegri sem sést hefur. Endalaust flaut og liðin meira og minna á vítalínunni allan fjórðunginn. Það sem gerði gæfumuninn var að gestirnir byrjuðu leikhlutann vel með þristi frá Hlyni og enduðu hann á sama hátt með flauturýtingi frá Addú. Þá var staðan 55-71 og ansi litlu að fagna fyrir heimamenn.

 

Róbert og Egill Agnar settu svo sinn þristinn hvor í upphafi fjórða leikhluta. Þegar 7 mínútur voru eftir var staðan 57-78 og úrslitin ráðin. Síðasti leikhlutinn var lítið skemmtilegri en sá þriðji og það hentaði gestunum vel. Flæðið var lítið í leiknum, mikið um villur og ÍR-ingar gátu ekki hitt hafið. Áhorfendur fengu að fylgjast með rúmum tveimur ruslamínútum og það verður að segjast eins og er að það á ekki að gerast á heimavelli toppliðsins. En gestunum er vafalaust alveg sama um skemmtanagildi enda frábær 64-87 stórsigur þeirra niðurstaðan.

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Þriggja stiga nýting liðanna var svört og hvít. ÍR-ingar settu 5 þrista í 29 skotum sem gerir 19% nýtingu en gestirnir hittu úr 14 skotum af 29. Benda verður á að skýringin á þessum mun felst mikið til í frábærum varnarleik gestanna.

 

Bestu leikmenn leiksins

 

Tómas Þórður Hilmarsson var frábær í þessum leik. Hann setti 19 stig og tók 7 fráköst og kom sínum mönnum á bragðið. Hlynur minnti svo heldur betur á sig, setti 18 stig, tók 12 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Þá er ótalið það sem hann gerði fyrir liðið varnarlega en hann  á mestan heiður af því að halda Ryan Taylor niðri. Róbert og Sherrod áttu einnig mjög góðan leik í kvöld.

 

Kjarninn

 

Það má velta því fyrir sér hvort svona slæmt tap eigi eftir að sitja eitthvað í ÍR-ingum og draga úr sjálfstrausti þeirra í framhaldinu. Þeirri spurningu verður svarað eftir viku er þeir fá Þórsara frá Þorlákshöfn í heimókn. Það verður athyglisverður leikur enda Þórsarar á ágætri siglingu þessa dagana.

 

Stjörnumenn hafa verið svolítið eins og jójó í vetur og erfitt annað en að grípa til frasans um óstöðugleika. En úrslitin ráðast ekki fyrr en í úrslitakeppninni, hver veit hvað Stjörnumenn gera þar.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson