Í annað sinn á leiktíðinni kjöldrógu Haukar Njarðvík í Domino´s-deildinni og í kvöld voru lokatölurnar sögulegar,  75-114 Hauka í vil! Hafnfirðingar komu með 53 stig inn af tréverkinu, náðu mest 43 stiga forystu í leiknum, smelltu niður 17 þristum og í alla staði tóku þeir Njarðvíkinga í nefið.

Sigur Hauka í kvöld færði Njarðvíkingum sitt versta tap á heimavelli síðan úrslitakeppnin var tekin í gagnið árið 1984. Aðeins ÍR hefur gert Njarðvíkingum stærri skráveifur í Ljónagryfjunni með 42 stiga sigri í Njarðvík árið 1971 og svo 52 stiga sigri í Ljónagaryfjunni árið 1973.

Stærstu ósigrar Njarðvíkinga á heimavelli frá upphafi

1973 gegn ÍR í Ljónagryfjunni, 48-100, 52 stiga ósigur
1971 gegn ÍR í Ljónagryfjunni, 53-95, 42 stiga ósigur
2018 gegn Haukum í Ljónagryfjunni, 39 stiga ósigur

Þróun mála
Í upphafi stefndi í mikinn slag, lítið skorað á upphafsmínútunum en þrír þristar með skömmu millibili frá Kára Jónssyni og Hauki Óskarssyni hleyptu heldur betur blóði í Hauka sem eftir þetta voru funheitir fyrir utan og skiluðu niður alls 17 þristum í kvöld sem er næstmest í deildinni þetta tímabilið til þessa en metið á Keflavík með 18 þrista í sigri gegn Val í fyrstu umferð. Staðan 35-57 í hálfleik og Njarðvíkingar áttu aldrei afturkvæmt inn í leikinn.

Harðir Haukar
Hafnfirðingar fengu aragrúa af villum dæmdar á sig í fyrri hálfleik, mikið af þeim var afskaplega vægt en Hafnfirðingar léku stíft og sá dropi holar steininn og Njarðvíkingar voru einfaldlega engan veginn reiðubúnir í þau átök. Útkoman var að heimamenn hófu smátt og smátt að týnast úr stúkunni vel áður en leikurinn var allur enda ekki viðlíka útreiðum vanir margir hverjir áhorfendurnir í Ljónagryfjunni. Það verður að hrósa Haukum fyrir seigluna, léku stíft og sýndu að þeir eru óðar að slípa vígtennurnar fyrir úrslitakeppnina enda fengu þeir 53 stig af bekknum í kvöld svo menn eru klárir í bátana.

Úrræðaleysi
Bróðurpartur leiksins einkenndist af úrræðaleysi hjá Njarðvíkingum sem komu hvergi fram vilja sínum, hittu ekkert og þeir þristar sem láku niður voru 1-12 í fyrri hálfleik og 5-15 í síðari hálfleik og þeir sem féllu í síðari skiptu nákvæmlega engum sköpum. Haukar voru búnir að berja allt úrræði og allan vilja úr gestgjöfum sínum og líta vel út á leið inn í framhaldið. Njarðvíkingar að sama skapi fengu bragð af því hvernig efri hluti töflunnar smakkast en fyrir kvöldið hafði Njarðvík unnið þrjá leiki í röð gegn liðum neðar í töflunni.

Næst á dagskrá
Njarðvíkingar mega núna hanga með sögulegan ósigur á bakinu í hálfan mánuð áður en þeir komast á parketið að nýju en þá mæta þeir Keflavík úti í Keflavík sem í kvöld gerði sér lítið fyrir og lagði heitasta lið landsins, KR, úti í DHL-Höll. Haukar að sama skapi fá ekki langan tíma til að hvíla sig og mæta KR í Schenkerhöllinni á sunnudag í toppslag deildarinnar.

Atkvæðamestir
Haukur Óskarsson var stigahæstur í liði Hauka í kvöld með 26 stig og á hæla hans kom Kári Jónsson með 25 stig, 7 fráköst og 4 soðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Kristinn Pálsson atkvæðamestur með 20 stig og 10 fráköst og Terrell Vinsson með 18 stig og 10 fráköst.

Tölfræði leiksins