Stjarnan tók í kvöld á móti Skallagrími í Domino‘s deild kvenna. Fyrir leikinn var Stjarnan í 4. sæti deildarinnar með 22 stig, en Skallagrímur var með 16 stig í 5. sæti deildarinnar. Með sigri gátu gestirnir úr Borgarnesi því saxað á forskot Garðbæinga í baráttunni um sæti í úrslitakeppni deildarinnar.

 

Eftir að heimakonur voru betri í fyrsta leikhluta komust gestirnir betur inn í leikinn og voru sex stigum yfir í hálfleik, 30-36. Í seinni hálfleik náðu gestirnir svo að halda Stjörnunni fyrir aftan sig allan hálfleikinn og unnu að lokum 9 stiga sigur, 64-73.

 

 

 

Lykillinn

Þegar litið er á tölfræði leiksins blasir við að Skallagrímur tók heil 66 fráköst í leiknum gegn 35 fráköstum Stjörnunnar. Þar af tóku Skallagrímskonur 31 sóknarfrákast, sem skiluðu 18 stigum á töfluna.

 

Hetjan

Carmen Tyson Thomas var langatkvæðamest í liði Skallagríms og skoraði 35 stig og tók auk þess 16 fráköst.

 

Léleg skotnýting

Það er kannski ekki furða að Skallagrímur hafi tekið eins mörg fráköst og raun bar vitni, því næg voru tækifærin. Liðin hittu samtals úr 55 af 161 skoti sínu, sem gerir samtals 34% skotnýtingu.

 

Framhaldið

Stjarnan spilar næst gegn Val á Hlíðarenda laugardaginn 24. febrúar, en Skallagrímur tekur á móti Haukum sunnudaginn 25. febrúar. Nú munar aðeins fjórum stigum á liðunum í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en Stjarnan situr enn í fjórða sæti deildarinnar með 22 stig.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson