Breiðablik landaði seiglusigri í Domino´s-deild kvenna í kvöld þegar liðið lagði botnlið Njarðvíkur í spennuslag. Njarðvíkingar voru við stýrið mest allan leikinn en Blikar tóku völdin á lokasprettinum og fóru með tvö stig heim í Kópavog eftir 66-70 sigur.

Með ósigri kvöldsins hafa Njarðvíkingar tapað 20 deildarleikjum í röð og ótrúlegt en satt er þetta silfurlið Maltbikarsins, það er margt skrýtið í kýrhausnum. Þar sem Stjarnan tapaði í kvöld eygja Skallagrímur og Breiðablik enn von um sæti í úrslitakeppninni enda munar aðeins fjórum stigum í kvöld á þeim og Garðbæingum.

Shalonda Winton átti svakalegan leik í liði Njarðvíkinga í kvöld með 35 stig, 20 fráköst og 7 stoðsendingar en næst henni var Ína María Einarsdóttir með 10 stig. Hjá Blikum var Whitney Knight stigahæst með 22 stig og 15 fráköst, hún var lengi í gang en lét vel að sér kveða þegar Blikar tóku á rás á lokaspretti leiksins. Þá var Isabella Ósk Sigurðardóttir mögnuð í liði Blika með 18 stig og 10 fráköst.


Gangur leiksins
Njarðvíkingar hófu leik kvöldsins með látum og þristur frá Shay kom þeim í 26-9 og Blikakonur heillum horfnar. Gestirnir tóku sig þó saman í andlitinu og unnu annan leikhluta 16-23 og staðan 37-32 Njarðvík í vil í hálfleik. Njarðvíkingar voru enn við stýrið eftir þrjá leikhluta og leiddu 59-46 en í þeim fjórða óx gestunum ásmegin. Vörn Blika small saman og sóknarleikur heimakvenna hvarf enda fór leikhlutinn 7-24 fyrir Blika! Shay minnkaði muninn fyrir Njarðvík í 64-66 þegar ein og hálf mínúta lifði leiks en allur skriðþunginn var gestamegin og því kláruðu Blikar leikinn af miklum krafti.

Shay Winton
Engum dylst að hér fer frábær leikmaður en Njarðvíkurkonur þurfa að ógna á fleiri stöðum og á meðan Winton skilar fullum 40 mínútum í leik er viðbúið að pústið sem fer í það kalli á að fleiri stígi upp og láti að sér kveða í sóknarleiknum. Blikar að sama skapi héldu fókus allan leikinn og loks þegar Knight ákvað að láta til sín taka fjölgaði til muna vopnum í búri þeirra. Tlema Lind og Auður Íris stungu að sterkum körfum en Knight og Ísabella voru fyrirferðamestar og þar liggur töluverður munur hjá liðunum því á lokasprettinum horfðu Njarðvíkingar of mikið til Winton á meðan ógnin hefði þurft að vera á fleiri stöðum.

Framundan
Næst á dagskrá hjá Njarðvíkingum er grannaglíma gegn Keflavík þann 24. febrúar en Blikar mæta Snæfell í Smáranum sama dag.

Tölfræði leiksins

Njarðvík-Breiðablik 66-70 (21-9, 16-23, 22-14, 7-24)

Njarðvík: Shalonda R. Winton 35/20 fráköst/7 stoðsendingar, Ína María Einarsdóttir 10, Björk Gunnarsdótir 9/4 fráköst, Hulda Bergsteinsdóttir 4/6 fráköst, Hrund Skúladóttir 4/8 fráköst/5 stoðsendingar, María Jónsdóttir 4/14 fráköst, Dagmar Traustadóttir 0, Erna Freydís Traustadóttir 0, Karen Dögg Vilhjálmsdóttir 0, Aníta Carter Kristmundsdóttir 0, Heiða Björg Valdimarsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.
Breiðablik: Whitney Kiera Knight 22/15 fráköst, Isabella Ósk Sigurðardóttir 18/10 fráköst/5 stoðsendingar/4 varin skot, Telma Lind Ásgeirsdóttir 11, Auður Íris Ólafsdóttir 7/4 fráköst, Lovísa Falsdóttir 5, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 3, Sóllilja Bjarnadóttir 2, Marín Laufey Davíðsdóttir 2, Birgit Ósk Snorradóttir 0, Melkorka Sól Péturdóttir 0, Arndís Þóra Þórisdóttir 0, Hafrún Erna Haraldsdóttir 0.
Dómarar: Aðalsteinn Hjartarson, Sigurbaldur Frimannsson, Gunnlaugur Briem
Áhorfendur: 56