Ragna Margrét Brynjarsdóttir leikmaður Stjörnunnar verður frá keppni í óákveðin tíma vegna höfuðhöggs sem hún fékk í leik gegn Snæfell fyrir landsleikjahlé. Þetta staðfesti hún í samtali við Karfan.is. 

 

Leikmaðurinn lenti í samstuði við Önnu Soffíu Lárusdóttur leikmann Snæfell en hún er einnig frá keppni vegna höggsins. Ragna Margrét hefur verið frá æfingum líkt og Anna Soffía alveg frá því að leikurinn gegn Snæfell fór fram þann 3. febrúar. 

 

„Ég fékk högg á höfuðið og skurð í síðasta leik á móti Snæfell fyrir landsleikjahléð. Ég er búin að vera að sýna einkenni heilahristings síðan. Svo ég hef bara verið að hlusta vel á líkamann og taka því rólega síðustu vikur. Ég er enn ekki farin að æfa en þetta er allt saman á uppleið.“ sagði Ragna Margrét við Karfan.is fyrr í dag.

 

„Það er erfitt að segja til hversu lengi ég verð frá, ég þarf að vera einkennalaus í nokkurntíma áður en ég get farið að spila aftur. Ég fer bara eftir því sem Andri sjúkraþjálfari segir.“ sagði Ragna Margrét svo að lokum.

 

Stjarnan mætir Skallagrím í Dominos deild kvenna í kvöld kl 19:15 í Ásgarði. Stjarnan situr í fjórða sæti deildarinnar eftir 19 umferðir en Skallagrímur í því sjötta og gæti sigur Skallagríms í kvöld sett pressu á Stjörnuna í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.