Fimm tuddaleikir í kvöld og þá er ekki úr vegi að fá einhvern jaxl til að rýna í kvöldið. Að þessu sinni er það byssubrandurinn Ólafur Már Ægisson sem tekur að sér að kanna málin.

Keflavík vs Höttur.

Eftir að hafa valdið öllum áhugamönnum um körfubolta vonbrigðum í vetur þá voru Keflvíkingar greinilega vaknaðir í síðustu umferð og hefðu jafnvel getað stolið sigri ef einn ákveðinn maður í appelsínugulum bol hefði ekki klárað leikinn með einu flauti. Þetta á ekki að vera spennandi leikur og ég reikna með 15-20 stiga sigri hjá Keflavík.

Grindavík vs Njarðvík.

Þetta verðu að öllum líkindum staðlaður suðurnesjaslagur og Slagsmál frá fyrstu mínútu. Grindvíkingar eru vonandi vaknaðir eftir síðasta leik þar sem lykilmenn ákváðu að vera ekkert að skipta sér af þessum leik sem var verið að spila í Frostaskjóli. Ég trúi samt ekki öðru en að þeir mæti klárir og geri þetta að alvöru leik. Njarðvík eru á fínu róli og geta unnið öll lið en að sama skapi tapað fyrir öllum ef þeir eru ekki klárir í að slást. Ég ætla að spá Njarðvík naumum sigri í framlengingu þar sem LG saltar leikinn á vítalínunni.

Valur vs ÍR

Ég ætla að vera leiðinlegi gæjinn og segja að blaðran sé sprungin. Það hefur ekkert lið rúllað auðveldlega yfir Val í vetur og þeir geta verið hættulegir. ÍR er að missa flugið og mikil höfuðstærð gerir engum sérstaklega gott. Ég ætla að spá Val sigri en þetta verður skemmtilegur leikur.

Þór Þorlákshöfn vs Tindastóll.

Ég held að Tindastóll sé hreinlega með betri mannskap og fari langt á því. Þeir geta búið til mörg vandamál fyrir þórsara með Hester á póstinu og geta líka gert þeim erfitt fyrir ef þeir halda uppi tempói í 40 Mín. Þórsarar þurfa að eiga toppleik til að eiga séns og að sama skapi þurfa stólarnir að klúðra sínum málum sem ég trúi ekki að að þeir geri. Tindastóll +8 ef allt er eðlilegt.

Þór AK vs Stjarnan.

Stjarnan kominn með nýjan Erlend sem á að kunna að spila körfubolta miðað við fyrsta leik og vonandi að þeir séu að stíga upp á réttum tíma. Stjarnan verður hreinlega að vinna þennan leik ef þeir ætla að gera atlögu að betra sæti fyrir úrslitakeppni en Þórsarar eru sprækir og láta ekkert vaða yfir sig á Akureyri. Ég geri ráð fyrir skemmtilegum leik en að lokum sigrar Stjarnan með +6.

Ég ber enga ábyrgð á þessari spá og hafi ég sært einhvern má sá aðili senda póst á fannarolafs666@hotmail.com og koma sinni kvörtun á framfæri. Kvörtunum verður svarað í réttri röð.

Ólafur Már Ægisson