Njarðvíkingar höfðu öruggan 84-74 sigur á Þór Akureyri í Domino´s-deild karla í kvöld. Heimamenn búnir að endurheimta Kristinn Pálsson úr ísingu frá meginlandi Evrópu en Þórsarar mættir í Ljónagryfjuna án Pálma Geirs Jónssonar sem meiddist á síðustu æfingu fyrir leik. Eftir fína byrjun gestanna tóku heimamenn völdin með 29-15 skvettu í öðrum leikhluta og Þórsarar komust ekki nærri eftir það. Njarðvík áfram í 5. sæti deildarinnar og nú með 20 stig en Þór í 11. sæti með 6 stig eða fjórum stigum á eftir Valsmönnum sem töpuðu í Garðabæ í kvöld.

Gangur mála
Gestirnir frá Akureyri voru frískir í upphafi leiks með Nino D´Angelo í broddi fylkingar. Þeir Nino og Vinson í liði Njarðvíkinga áttu nokkrar fínar rimmur í kvöld en Þórsarar söknuðu sárlega Pálma í teigbaráttunni. Oddur Rúnar Kristjánsson kom Njarðvíkingum á sporið í kvöld með nokkrum þristum og heimamenn sem dreifðu skorinu vel tóku leikinn í sínar hendur í öðrum leikhluta. Lokasprettur leiksins var svo fremur subbulegur þó Þórsarar hafi gert nokkuð vel í að minnka muninn. Þá var eins gaman að sjá öfluga takta í Hilmari Smára Henningssyni sem var með 17 stig í kvöld, 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Öflugur leikmaður hér á ferðinni, vinsamlegast glósið hjá ykkur. Að öðru leyti sáum við nokkuð af svæðisvörn hjá báðum liðum, nýtingin í þristum gegn þeim var fremur dauf og menn almennt ekki að hitta á skotleik þetta kvöldið nema Oddur Rúnar kannski heitastur framan af.

Krist-inn
Kristinn Pálsson fékk loks niðurstöðu í sín mál og var klár í slaginn í kvöld með Njarðvík eftir að leikheimild hans var sett á frost. Njarðvíkingar settu Kristinn inn snemma leiks en hann skilaði tæpum 20 mínútum í kvöld með 7 stig, 4 fráköst og 1 stoðsendingu.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig Kristni muni svo vegna með „uppeldisklúbbnum“ á næstunni en hann gefur Njarðvíkingum mikla dýpt í sinn leik.

Enginn í 20 stig
Það tókst engum á parketinu í kvöld að hala inn 20 stigum, fjórir í liði Njarðvíkinga með 11 stig eða meira en þeir Maciek Baginski og Terrell Vinson voru báðir með 16 stig, Ragnar Nathanaelsson með tvennu eða 12 stig og 10 fráköst og Oddur Rúnar Kristjánsson með 11 stig. Þrír hjá Þór voru með 14 stig eða meira, Hilmar Smári atkvæðamestur með 17 stig en þeir Ingvi Rafn ingvarsson og Nino D´Angelo báðir með 14 stig.

Hvað bíður þessara liða?
Um þessar mundir eru Njarðvíkingar í 5. sæti deildarinnar með 20 stig og framundan er enginn smá skammtur af stórleikjum. Fjórir risaleikir í röð. Þann 12. febrúar gegn Grindavík úti, 16. febrúar gegn Haukum heima, 1. mars gegn Keflavík úti og svo heimaleikur gegn Tindastól 5. mars. Þórsara bíður ekki minna verkefni sem nú berjast af afli fyrir lífi sínu í deildinni en næstu fjórir leikir eru Stjarnan heima, ÍR úti, Valur heima og Þór Þorlákshöfn heima.

Myndasafn

Tölfræði leiksins

Njarðvík-Þór Ak. 84-74 (23-21, 29-15, 14-12, 18-26)

Njarðvík: Terrell Vinson 16/7 fráköst/3 varin skot, Maciek Stanislav Baginski 16/6 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 12/10 fráköst/3 varin skot, Oddur Rúnar Kristjánsson 11/7 stoðsendingar, Logi  Gunnarsson 9, Kristinn Pálsson 7/4 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 5, Snjólfur Marel Stefánsson 4/9 fráköst, Ragnar Helgi Friðriksson 4/4 fráköst, Brynjar Þór Guðnason 0, Veigar Páll Alexandersson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0.

Þór Ak.: Hilmar Smári Henningsson 17/4 fráköst, Nino D'Angelo Johnson 14/11 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Ingvi Rafn Ingvarsson 14/6 fráköst, Bjarni Rúnar Lárusson 8, Sindri Davíðsson 7, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 6, Júlíus Orri Ágústsson 6, Baldur Örn Jóhannesson 2, Marques Oliver 0, Ragnar Ágústsson 0, Svavar Sigurður Sigurðarson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0/4 fráköst.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Georgia Olga Kristiansen