Fjórir leikir fara fram í Dominos deild karla í dag. Leikið er í sautjándu umferð deildarinnar og því hver leikur orðin ansi hreint mikilvægur. 

 

Í Garðabæ tekur Stjarnan á móti Val, fyrri leikur liðanna var eftirminnilegur en Valur vann þann leik 110-104 eftir framlengdan naglbít. Njarðvík tekur á móti Þór Akureyri sem þarf á sigri að halda til nálgast Val í 10 sætinu. Fyrri leikur liðanna endaði með 85-92 sigri Njarðvíkur á Akureyri. 

 

Á Egilsstöðum fer fram frestaður leikur frá síðasta sunnudegi en þar mæta Haukar í heimsókn til Hattar. Þegar liðin mættust fyrr á tímabilinu unnu Haukar 105-86. Haukar verða án þjálfara síns Ívars Ásgrímssonar en hann þjálfar A-landslið kvenna sem leikur í undankeppni Eurobasket á næstu dögum. Í hans stað stjórnar Vilhjálmur Steinarsson aðstoðarþjálfari liðinu. 

 

Keflavík mætir svo á Sauðárkrók þar sem bikarmeistarar Tindastóls taka á móti þeim. Liðin sem mættust í átta liða úrslitum deildarinnar á síðasta tímabili mættust einnig fyrr í vetur í Keflavík þar sem Sauðkrækingar unnu 88-97. Keflavík verður án Dominque Elliot í leikum en hann var dæmdur í þriggja leikja bann í gær. 

 

Þá fer einn leikur fram í 1. deild karla. Þar tekur FSu á móti Breiðablik á Selfossi. En FSu náði í góðan útisigur í Stykkishólmi í síðustu umferð og því að komast betur í gang. Breiðablik aftur á móti tapaði gegn Vestra á heimavelli og vill því væntanlega rétta úr kútnum í toppbaráttu 1. deildarinnar. 

 

Fjallað verður um alla leiki dagsins á Karfan.is í kvöld. 

 

Leikir dagsins: 

 

Dominos deild karla:

 

Stjarnan – Valur – kl. 19:15 (í beinni á Stöð 2 Sport)

Njarðvík – Þór Akureyri – kl. 19:15

Höttur – Haukar – kl. 19:15
Tindastóll – Keflavík – kl. 19:15 (í beinni á Tindastóll TV)

 

1. deild karla:

FSu – Breiðablik – kl. 19:15