Árið 2005 stofnaði ég ásamt góðum hópi þessa vefsíðu, Karfan.is. Ætli það sé ekki aldurinn sem geri það að verkum að maður er orðinn helst til of mjúkur eða einhver fortíðarhyggja sem veldur þessum skrifum en í gærkvöldi rakst ég á góða mynd. Á myndinni er Baldur Þór Ragnarsson aðstoðarþjálfari hjá Þór Þorlákshöfn að fagna vel og innilega eftir útisigur á ÍR. Þeir sem þekkja til Baldurs vita að hann er mikill stemmningskall og því ekki að ósekju að á meðan aðrir Þórsarar láta sér nægja að klappa svona hóflega eins og myndin að ofan gefur til kynna þá er Baldur í trans, ég hefði vænst nákvæmlega þess af honum!

Eflaust eru einhverjir hundar í bransanum eins og ég, þjálfarar, leikmenn, stuðningsmenn, stjórnarfólk eða aðrir sem lenda oft í þessu sem henti mig í gærkvöldi en þá um leið og ég leit á þessa mynd áttaði ég mig á því að ég hef fylgst með körfuboltaferli Baldurs og fjölda annarra nánast frá upphafi! Assskoti er maður farinn að eldast.

Baldur lenti fyrst inni á borði hjá mér þegar ég var að brigsla við að þjálfa 1990 árganginn hjá Stjörnunni. Sá árgangur skilaði ekki A-landsliðsmönnum en þar gaf að líta einvörðungu öndvegispilta. Einn þeirra var mikill keppnismaður og skytta góð og hefur stungið niður penna fyrir Karfan.is undanfarin ár en gerði garðinn helst frægan fyrir að rúlla upp Gettu betur og Útsvarinu, þið megið giska á hvern um ræðir. En aftur að Baldri og því hvað ég er orðinn gamall.
 

Í kringum 2001 þá er ég að þjálfa Stjörnuna og þeir piltar þá að verða 11 ára gamlir og við mætum Þór Þorlákshöfn og þar auðvitað með yfirsjón yfir hópnum voru mektarhjónin Jóhanna og Ragnar (sem eru enn að). Fremstur í flokki Þórsliðsins fór svo Baldur sem sveif um gólf með tilþrifum og raðaði niður stigum. Eins og oft vill verða með unga menn náðu KR-ingar síðan að toga hann til sín í nokkur ár og 1990 árgangur KR var farsæll í þessum aldurshópi. Leiðin lá svo aftur heim í Þór og fyrr en varði fór hann að gera tilkall í meistaraflokkinn og einhverstaðar þarna í millitíðinni lágu leiðir okkar saman í verkefnum yngri landsliða á t.d. Norðurlandamótum.

Baldur spilaði svo með Þór í mesta uppgangi félagsins í sögunni og er nú kominn á hliðarlínuna sem aðstoðarþjálfari með einkaþjálfararaskírteini upp á vasann.
 

Þetta er eilífð íþróttamanns eins og segja má og mér finnst ég ekkert vera gamall, hlutirnir gerast orðið bara svo ógeðslega hratt. Þetta er engin lofræða um Baldur því ég gæti auðveldlega hnoðað í aðra grein um það hvað hann er mikil steik en læt það ógert því hann er drengur góður (broskall).
 

En það var einmitt þetta sem hoppaði upp í kollinn á mér, ég er búinn að fylgjast með eilífð íþróttamanns á um það bil 17 árum sem þjálfari og fjölmiðlamaður og svo detta inn á borð hjá manni myndir eins og í gærkvöldi og gamli gamli fer bara á fleygiferð niður „memory lane.“

Á þessum tíma öllum finnst mér íslenskum körfuknattleik hafa fleygt fram, þjálfun batnað, aðstaða víða til batnaðar, aukinn alþjóðlegur árangur okkar og það sem meira er um vert… við í körfuboltanum virðumst vera að reyna að varðveita þekkinguna. Sú staðreynd að kappi eins og Baldur velur að halda áfram að sinna hreyfingunni þrátt fyrir að hafa hætt sem leikmaður er mikils virði því tap á þekkingu er hverjum iðnaði þungur hnífur. Þetta er því kannski ekki lofræða um Baldur sem slík, fremur þakklæti til þeirra sem velja að varðveita þekkinguna innan hreyfingarinnar okkar.

Ekki fleira í bili.
Kv. Gamli Jón