Matthías Orri var ekkert sérstaklega vel tengdur að þessu sinni frekar en liðsfélagar hans:

 

Mér fannst vörnin hjá Stjörnunni hreinlega naga úr ykkur sjálfstraustið smátt og smátt? 

 

Við brotnum bara snemma í þriðja leikhluta. Þeir voru að loka teignum en voru að gefa okkur frekar opin skot fyrir utan teig en þetta voru ekkert nema múrsteinar frá okkur í dag. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða því við eigum ekki að vera að klikka svona á heimavelli. Það gerist stundum á útivelli að vera alveg off en við þekkjum þessar körfur nokkuð vel og eigum bara að setja okkar skot niður, hvort sem það er sniðskot, þristar eða vítalínan. Vítalínan var okkur erfið í dag líka sem er eitthvað sem á ekki að gerast. En þeir lokuðu teignum, gáfu okkur skot fyrir utan en við náðum ekki að nýta okkur það.

 

Er ekki svolítið áfall að tapa þessum leik á þennan hátt – þó það sé kalt á toppnum og allt það?

 

Neinei, við vitum bara að það eru allir með skotmark á toppliðið og við vitum að við megum búast við besta leik allra, sérstaklega hérna í Seljaskóla. Það er stemmning hérna og sjónvarpið á staðnum og andstæðingarnir vilja sýna sig fyrir öllum. En við stóðumst alls ekki prófið í dag. Þeir voru harðir á okkur og við gáfum eftir í stað þess að mæta þeim. Þetta er alveg óásættanlegt, ég og fleiri lykilmenn í liðinu vorum bara alls ekki að performa í dag. En við þurfum að kunna að taka þessum töpum og við höfum talað um það að tapið mun koma og það er rosalega mikilvægt hvernig við ætlum að tækla þetta tap. Það eru 6 leikir eftir og við megum ekki misstíga okkur mikið meira ef við ætlum að halda okkur í fyrsta sætinu. Það er ný áskorun að finna út hvernig við ætlum að notfæra okkur þetta tap í átt til góðs. 

 

Þegar í ljós kom að Stjarnan var að loka teignum vel og héldu Ryan ágætlega niðri hljótið þið að hafa rætt einhver viðbrögð við því. Hvert var planið til að leysa úr þessu?

 

Jájá, við fórum í seinni hálfleik í einfaldan leik þar sem ég, Ryan og Danero erum í svona þriggja manna leik á kantinum. Mér fannst það virka ágætlega en málið var að við stoppuðum ekki nokkurn skapaðan hlut varnarlega – þeir voru á vítalínunni allan þriðja leikhlutann og við brotnuðum svo bara endanlega í fjórða leikhluta. En við eigum að geta gert betur, við bakverðirnir sem erum að fá þessi opnu skot, það er ekki ásættanlegt að við séum að klúðra þeim öllum. Við þurfum að hjálpa okkar manni, Ryan, við verðum að opna fyrir hann með því að setja þessi skot. Það að hitta ekki neitt og ekki stoppa nokkurn skapaðan hlut varnarlega er ómöguleg blanda.

 

Meira um leikinn hér

 

Viðtal / Kári Viðarsson