Akureyrar-Þórsarar heimsóttu ÍR-inga í hellinn í kvöld. Þórsarar hafa sýnt ágætis leiki í vetur en uppskeran hefur þó verið rýr, aðeins 6 stig í húsi. Tveir þriðju hlutar þeirra hafa komið gegn Keflavík og verða ekki fleiri þennan veturinn. Heimamenn í ÍR eru óneitanlega mun sigurstranglegri og hafa að miklu að keppa enda enn í toppbaráttu þrátt fyrir tvo tapleiki í röð á heimavelli. Að vísu var Matthías enn fjarri góðu gamni, en ÍR-ingar sýndu að þeir eru lið án hans gegn Val í síðustu umferð. Verkefni Þórs frá Akureyri er kannski einkum það að sýna sjálfum sér og öðrum að þeir séu ekki búnir að gefast upp á því að berjast um sæti sitt í deildinni.

 

Spádómskúlan: Að þessu sinni birtir kúlan einfaldlega tvö orð á ólýsanlega fallegan og myndrænan hátt. Það eru orðin vilji og áhugi. Þessi orð er tengd við Hellinn svo öruggur heimasigur er í vændum, 85-72.

 

Þáttaskil

Gestirnir hófu leik með kraftmikilli svæðisvörn og heimamenn fundu engan takt gegn henni. Nino var að sama skapi atkvæðamikill undir körfu ÍR-inga og Borche tók leikhlé í stöðunni 2-10. Það skilaði árangri og heimamenn hófu að taka þátt í leiknum. Eftir fyrsta fjórðung var staðan 16-17.

 

Ryan Taylor lagði sitt af mörkum við að bæta upp fjarveru Matta og sýndi færni sína með boltann ítrekað í leiknum, einkum eftir að hafa borðað varnarfrákast. Hann óð upp völlinn og það skilaði sér oft í þægilegum körfum fyrir heimamenn. Ein þeirra verður lengi í minnum höfð en þá spólaði Ryan sig upp allan völlinn og tróð svo YFIRGENGILEGA að undirritaður féll nánast í yfirlið. Sæsi gerði sig einnig gildandi í öðrum leikhluta en munurinn var þó gott sem enginn í hálfleik, 37-33.

 

Sæsi hélt áfram að gera frábæra hluti í þriðja leikhluta og blokkaði þrjú skot á fyrstu mínútum fjórðungsins. Þórsarar gátu ekki keypt körfu og skipti engu hversu opin færi þeir fengu, ef Sæsi blokkaði skotin ekki voru þau víðsfjarri. Þegar 6:30 voru eftir af leikhlutanum voru heimamenn komnir í 47-35 forystu og Hjalti tók leikhlé og hellti úr skálum reiði sinnar. Það skilaði engu, mínútu síðar setti Sæsi þrist og staðan orðin 51-35. Kiddi Marínós tók við keflinu fyrir utan og kom sínum mönnum í 59-39 forystu. Þórsliðið má illa við svona holskeflu enda sjálfstraust liðsins ekki beint upp í skýjunum. Að vísu minnkuðu þeir muninn í 61-49 fyrir lokaleikhlutann þegar helstu hestar ÍR-inga sátu á bekknum og það má velta fyrir sér hvort Borche hafi kannski gert smá mistök þarna og fært þeim von á silfurfati.

 

Ingvi Rafn vaknaði aðeins til lífsins í byrjun fjórða leikhluta og setti 5 stig í röð. Þrátt fyrir það varð aldrei úr áhlaupi gestanna og má segja að Sæsi hafi slökkt síðasta vonarneistann um miðjan leikhlutann með þristi og setti stöðuna í 73-56. Úrslitin voru þarna ráðin og endaði leikurinn með 85-69 liðssigri ÍR-inga.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Þriggja stiga skotnýting Þórsara var 16% (4/25) í leiknum. Það gengur ekki, sérstaklega ekki þegar andstæðingurinn er að tví- og þrídekka stóra manninn þinn undir körfunni.

 

Hetja leiksins

Liðsheild ÍR er hetja leiksins. Þvílíkur liðssigur! Þó verður að taka fram að Ryan setti 19 stig, tók 15 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Klónið þennan mann!

 

Kjarninn

Þór Akureyri er nú í ansi þröngri stöðu í ljósi tapsins og sigurs Vals í kvöld. Þeir þurfa nánast kraftaverk ætli þeir að halda sæti sínu í deildinni.

 

ÍR-ingar hafa nú svarað fyrir tapleikina tvo í röð á heimavelli með tveimur góðum sigrum án leikstjórnanda síns. Það er áfram rífandi toppbarátta í Breiðholtinu.

 

Athygliverðir punktar:

Gettó-arnir sungu jólalög og lífguðu upp á stemmninguna með blöðrum og innisprengjum. Það er krónísk hátíð í Hellinum.

Ef troðsla Ryan Taylor verða ekki tilþrif tímabilsins þá hlakka ég verulega mikið til þess að sjá þau!

 

Hlutabréf í Spádómskúlunni hækkuðu um 35,5% strax að leik loknum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtöl / Kári Viðarsson 

Myndir / Þorsteinn Eyþórsson