Njarðvík sótti mikilvægan sigur í Grindavík er liðin mættust í átjándu umferð Dominos deildar karla í kvöld. Grindavík hafði forystuna stærsta hluta leiksins en Njarðvík stal sigrinum að lokum og vann góðan sigur. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan.

 

Gangur leiksins:

 

Það var ákaflega lítið um varnarleik í upphafi leiks. Njarðvík fékk ítrekað að keyra inní miðjuna gegn vörn Grindavíkur og heimamenn fóru illa með svæðisvörn gestanna. Staðan strax í fyrsta leikhluta var 31-31. 

 

Ólafur Ólafsson sem kom af bekknum í dag átti frábæra innkomu og dreif sitt lið áfram. Hann fór fyrir liðinu sem náði forystu í öðrum leikhluta. Vörnin var mun sterkari hjá Grindavík en Njarðvíkur liðinu gekk illa að ná í stopp varnarlega. Staðan í hálfleik 57-50 fyrir heimamönnum. 

 

Njarðvík nálgaðist í þriðja leikhluta þar sem Snjólfur Marel átti flotta innkomu. Liðin urðu hnífjöfn og staðan fyrir fjórða leikhluta var 75-74 fyrir Grindvík. 

 

Í lokafjórðungnum skiptust liðin á forystunni. Lítill munur var á liðunum en Grindavík virtist alltaf vera í bílstjórasætinu og því líklegra til að klára leikinn. Gestirnir frá Njarðvík voru því ekki sammála  og komust yfir þegar tvær mínútur voru eftir. Grindavík hittu ekki stóru skotunum í lokin en Njarðvíkingar voru svellkaldir á vítalínunni. Að lokum voru það grænklæddir sem höfðu 89-92 sigur í Grindavík. 

 

Hetjan: 

 

Það var mikil liðsframmistaða sem vann þennan sigur fyrir Njarðvík. Terrel Vinson dróg þó vagninn af stakri snilld, endaði með 27 stig og 13 fráköst. Auk þess sem hann hitti vel og gerði aðra í kringum sig betri. Raggi Nat var mjög sterkur og var með 13 stig og 12 fráköst, ljóst að kauði er að finna fjölina betur og betur í grænu treyjunni. Auk þess má nefna innkomu Snjólfs sem spilaði fanta vörn og kom inn að miklum krafti. 

 

Hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson öflugastur með 18 stig og 9 fráköst. Hann var greinilega hundsvekktur útí sjálfan sig eftir frammistöðuna gegn KR fyrir nokkrum dögum því Óli var útum allan völl og í allri baráttu. Því miður voru fáir á sömu braut í lok leiksins. 

 

Kjarninn: 

 

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Njarðvík sem er nú búið að koma sér ansi þægilega fyrir í fimmta sæti deildarinnar. Á ögurstundu var liðið einfaldlega meira tilbúnir til að leggja extra á sig að sækja þennan sigur. Það barðist meira, leikmenn spiluðu sem lið og settu allt í lokamínúturnar sem skilaði þessum sigri. 

 

Grindavík er nú ansi óvænt komið í þá stöðu að geta frekar horft niður fyrir sig en upp fyrir sig í deildarkeppninni. Liðið er nær því að missa af úrslitakeppni en að sækja heimaleikjaréttinn fyrir úrslitakeppni. Gulir sitja í sjöunda sæti tveimur sætum frá Keflavík sem situr í áttunda. Þeir hafa unnið tvo af sjö leikjum ársins og það er eitthvað að. Sóknarflæðið er ekkert spes þegar mest á reynir og þar mjög lítið til að ýta þeim útúr sínum aðgerðum. Grindavík á nóg inni og líkleg að fá lið vilji mæta þeim í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, en það vantar einhvern neista og gleði í spilamennskuna. 

 

Tölfræði leiksins