Síðustu helgina í janúar fór hið árlega Póstmót Breiðabliks fram, en þetta var í tíunda sinn sem það var haldið. Mótið er haldið fyrir stelpur og stráka á aldrinum 6 – 11 ára og fengu öll lið fjóra eða fleiri leiki, sem leiknir voru á fimm völlum í Smáranum frá laugardagsmorgni og þar til mótinu lauk síðdegis á sunnudag.

 

Póstmótið heppnaðist gríðarlega vel í ár sem endranær og leikgleðin leyndi sér ekki meðal keppenda. Markmiðið með Póstmótinu hefur alla tíð verið að iðkendur í minnibolta kynnist fjölliðamótum á jákvæðan hátt og ekki síst þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessari frábæru íþrótt. Öll fóru börnin heim sem sigurvegarar að keppni lokinni. Með medalíu frá Póstinum um hálsinn, bíómiða frá Laugarásbíó í vasanum og drykkjarbrúsa frá World Class í hendinni.

 

Þá bauð Pósturinn þátttakendum upp á glæsilega kvöldvöku sem sló heldur betur í gegn hjá börnunum sem og forráðafólki þeirra. Þrír leikmenn meistaraflokks karla, Sveinbjörn, Sölvi og Jeremy, settu á svið troðslusýningu og hafa fagnaðarlætin eftir hverja troðslu líklega heyrst í næstu hverfum Kópavogs. Þá steig Góði Úlfurinn á stokk og tók tvö lög fyrir viðstadda við frábærar undirtektir, en þess má til gaman geta að Góði Úlfurinn er á þeim aldri að hann hefði heimild til spila á Póstmótinu í ár sem og á næsta ári. Virkilega flottur skemmtikraftur og aldrei að vita nema við sjáum við hann í búning á næsta ári. Hápunktur kvöldvökunnar var svo þegar JóiPé og Króli mættu og bundu enda á kvöldvökuna með frábæru tónlistaratriði. Krakkarnir hópuðust í kringum þá félaga, dönsuðu og sungu og virtust öll sem eitt kunna lög þeirra bæði aftur á bak og áfram. JóiPé og Króli sáu svo til þess að engin færi vonsvikin heim, tóku selfies með ungu aðdáendunum og gáfu eiginhandaráritanir og high-fives í hundraðatali.

 

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks vill koma á framfæri þakklæti til allra iðkenda, foreldra og annarra sem aðstoðuðu við framkvæmd mótsins.