KR vann öruggan sigur á Grindavík er liðin sem mættust í úrslitaeinvíginu á síðasta tímabili mættust að nýju. Segja má að KR hafi gefið tóninn snemma í leiknum og aldrei gefið eftir. 

 

Umfjöllun um helsti þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Þáttaskil.

 

Þetta byrjaði allt með hvelli. Kristófer Acox tróð boltanum eftir alley-up sendingu með tilþrifum og eftir það má segja að Grindvíkingar hafi verið skjálfandi á beinunum. Staðan strax í byrjun var 20-10. KR skipti sterkt á hindrunum sem Grindavík átti fá sem engin svör við. Grindavik var með 16% skotnýtingu eftir fyrsta leikhluta en staðan eftir hann var 26-11. 

 

Á tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik setti Grindavík einungis eitt stig. KR lék á alls oddi í leiknum á báðum endum vallarins. Munurinn í öðrum leikhluta var orðinn þrjátíu stig og fátt sem benti til annars en að leik væri lokið strax í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 53-25 fyrir KR. 

 

Grindavík voru ákveðnari í seinni hálfleik og KR steig aðeins af bensíngjöfinni. Áhlaup Grindavík voru samt sem áður ekki nægilega öflug. Leikurinn var því einungis uppá stoltið strax um miðbik þriðja leikhluta og tveir punktar bókaðir á KR. 

 

Lokastaðan var 102-72 fyrir KR sem segja má að hafi unnið auðveldan sigur á Grindavík. 

 

Hetjan:

 

Pavel Ermolinski lék sinn allra besta leik fyrir KR á tímabilinu. Hann stjórnaði sóknarleiknum algjörlega auk þess sem varnarleikur hans var nánast gallalaus. Hann endaði með 5 stig, 10 fráköst og 14 stoðsendingar, tölfræðilína sem kallast Pavelinn. Kristófer Acox var einnig frábær í kvöld. Það má alveg aflýsa fyrirhuguðum sýningum á Harlem Globetrotters því Kristófer bauð uppá troðslusýningu í leiknum. Hann endaði með 25 stig, 8 fráköst og þrjá varða bolta. 

 

Hjá Grindavík voru J’nathan Bullock og Dagur Kár Jónsson atkvæðamestir í sókninni. Auk þeirra var Davíð Busstion einn af fáum leikmönnum Grindavíkur sem voru tilbúnir að berjast á vellinum. 

Kjarninn:

 

Þvílík frammistaða hjá KR. Eftir nokkra vikna “lægð” virðist liðið vera að finna gleðina, stemmninguna og um fram allt frammistöðuna aftur. Það sást strax í upphitun að liðið var mjög einbeitt. Það ætlaði að vinna þennan leik og það kom í ljós strax í fyrstu sókn þegar Kristófer tróð boltanum með tilþrifum. Ef liðið heldur áfram að byggja á þessu og nær að bæta erlendum leikmanni við er ljóst að það verður ansi óárennilegt í úrslitakeppninni.

 

Grindavík var ekki með á nótunum í kvöld. Liðið varð undir í allri baráttu og ekkert gekk. Vonleysið helltist yfir snemma í leiknum og sjálfstraustið hvarf í leiðinni. Grindavík verður að gleyma þessum leik hratt og örugglega, liðið getur gert mun betur og þarf úr þessu að einbeita sér að því að verða betri fyrir úrslitakeppnina. 

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bára Dröfn)