KR kom í heimsókn í Höllina og eftir jafnan fyrri hálfleik skildu þeir Þórsarana eftir og unnu auðveldan sigur á heimamönnum.  Þórsarar þurfa að girða sig í brók fyrir komandi átök því nú eins og áður er hvert stig mjög dýrmætt.

 

 

Fyrir leikinn Þór – K.R. er staða liðanna ólík en K.R. er í öðru sæti ásamt Tindastól og Haukum tveimur stigum á eftir Í.R. sem trónir á toppnum.  Þór hins vegar er næst neðst, 4 stigum á eftir Val í 10. sæti þannig að sigur er bráðnauðsynlegur fyrir heimamenn.  Síðasti heimaleikur á móti Tindastól byrjaði ekki fyrr en í seinni hálfleik en það er nokkuð ljóst að það má ekki gerast í kvöld.  K.R. ingar láta eflaust ekki bjóða sér það tvisvar.  Heimamenn í Þór þurfa að byrja með látum og hitta betur en undanfarið.

 

Fyrri leikur liðanna í Vesturbænum fór 93 – 68 fyrir K.R en síðan það var hefur þeim verið mislagðar hendur og þurfa Þórsarar að spila inn á það.  Þetta verður hörkuleikur.

 

1.   Leikhluti.

Fyrsti leikhluti byrjaði betur hjá heimamönnum en í síðasta heimaleik og fékk boltinn að fljóta vel og komust þeir ítrekað í góð færi en eins og stundum áður datt boltinn ekki, það var sérstaklega áberandi í 3ja stiga skotum en bæði lið reyndu ítrekað að setja þrista og settu hvort um sig eitt þriggja stiga skot niður.  Jafnræði hélst með liðunum í leikhlutanum og varð munurinn mest 5 stig 15 – 20 undir lokin.  Fyrstu sex og hálfa mínútuna settu liðin samtals niður 21 stig (9 – 12) en seinustu þrjár og hálfu opnuðust varnirnar meira og skotin rötuðu betur í körfuna enda hættu liðin að mestu að reyna fyrir utan 3ja stiga línuna og settu þau 22 stig á þessum síðustu mínútum og endaði leikhlutinn í 20 – 23.  Þórsarar eru greinilega ákveðnir í að byrja leikinn strax og vonandi veit það á gott.

 

2. Leikhluti

K.R. ingar byrja annan leikhluta betur og ná 7 stiga forystu fljótlega en þá tekur Hjalti þjálfari Þórs leikhlé og peppar sína menn upp.  Það dugði ekki alveg því Vesturbæingar juku við forystuna og náðu henni upp í 13 stig 23 – 36 en þá kom áhlaup hjá heimamönnum sem komu muninum í 6 stig 30 – 36.  Það var ekki nóg því aftur jókst munurinn og fór hann í 13 stig að nýju 30 – 43 en þá kom annað áhlaup og komu heimamenn þessu niður í 8 stig en í lok leikhlutans munaði 11 stigum 37 – 48.

 

Nú er bara að vona að heimamenn haldi uppi sömu baráttu og síðast þegar seinni hálfleikur var miklu betri en sá fyrri.  Þessi leikur er langt frá því búinn og ef kæruleysið í sendingum verður skilið eftir í búningsklefanum og heppnin í skotum kemur í lið með Þórsurum þá verður kátt í Höllinni í leikslok.  Vonum það besta..

 

Stigahæstir í leikhléi eru Nino með 10 og Marques og Hilmar með sitt hvor 8 stigin.  Hjá K.R. eru Jón Arnór með 14 og KRistófer með 12.

 

3. Leikhluti

Liðin byrja leikhlutann misvel og því miður fyrir heimamenn gengur það ekki eftir að hefja seinni hálfleik á fullu gasi því K.R. ingar raða niður körfum og koma muninum fljótlega upp í þægileg 20 stig.  Þórsarar byrja alls ekki vel og sendingar og skot víðs fjarri körfu og mönnum.  Það segir sitt að eftir 2 og hálfa mínútu skora þeir fyrstu stigin sín og eftir 5 mínútur eru þeir búnir að setja fjögur stig.  K.R. ingar eru komnir í allt annan gír og skilja heimamenn ítrekað eftir í rykinu.  Full mikil virðing borin fyrir margföldum Íslandsmeisturum nema Júlíus sem ber enga virðingu fyrir þeim.  Í hálfleik munaði 19 stigum 56 – 75 eftir að hafa orðið mestur 23 stig í leikhlutanum.  Betur má ef duga skal.

 

4. Leikhluti

Þórsarar skelltu bekknum inn á í fjórða leikhluta enda mikilvægt að ungu strákarnir fái dýrmætar mínútur.  Það gerðu K.R.ingar einnig og hélst munurinn í þessum leikhluta í kringum 20 stigin.  Þessi leikhluti var tíðindalítill og endaði leikurinn með 23 stiga sigri K.R.  69 – 92.

 

Það er óhætt að segja að Þórsarar voru sjálfum sér verstir í þessum leik og náðu aldrei almennilega í gang í seinni hálfleik heldur létu K.R.inga líta vel út með slæmum sendingum og skotum sem hreinlega vildu ekki ofan í.  Það að setja einungis 32 stig og 37 stig í hálfleikjunum dugar ekki til að vinna leik í úrvalsdeildinni.  Þeir verða að spila á fullu í 40 mínútur en ekki bara 20 mínútur eða minna.  Það var eitthvað andleysi hjá heimamönnum sem olli þessu hruni í seinni hálfleik.  K.R. ingar gerðu það sem þurfti, keyrðu upp hraðann í seinni hálfleik og sköpuðu sér þægilegt forskot sem Þórsarar náðu aldrei að ógna að ráði.

 

K.R. heldur sér því í toppbaráttunni sem virðist ætla að verða spennandi fram á lokametra deildarinnar á meðan Þórsarar sitja enn í næst neðsta sæti, og þurfa nauðsynlega að ná sér í stig í næstu leikjum til að koma sér í baráttu við Val um 10. sætið.

 

Nino var stigahæstur heimamanna með 22 stig, Bjarni var með 12, Hilmar 11 og Marques 10.  Hjá K.R. var KRistófer með 22 og Jón Arnór og Brandon með 16 hvor.

 

Tölfræði leiks

 

 

Umfjöllun / Sigurður Freyr Sigurðarson