Bandaríkjamaðurinn Kelvin Lewis hefur yfirgefið Dominos deildar lið Hattar. Mun Lewis vera á leiðinni til Finnlands, en þar mun hann leika með liði Karhu í Korisliiga deildinni. Samkvæmt þjálfara liðsins, Viðari Erni Hafsteinssyni, mun Höttur því vera án erlends leikmanns síðustu þrjár umferðirnar, en eftir úrslit þeirrar síðustu er liðið fallið niður í 1. deild.

 

Lewis átti stórgott tímabil með Hetti. Í 14 leikjum spiluðum var hann stigahæstur allra í deildinni að meðaltali með 26 stig. Þá skilaði hann einnig 7 fráköstum og 4 stoðsendingum að meðaltali í leik.