Karfan sagði frá því fyrr í vikunni að Dominos deildar félag Njarðvíkur hafi verið dæmt af FIBA til þess að greiða ítalska félaginu Stella Azzura eina miljón og tvö hundruð þúsund í uppeldisbætur fyrir Kristinn Pálsson. Kristinn, sem er Njarðvíkingur að upplagi, fór ungur til Ítalíu þar sem hann lék með félaginu áður en hann fór til Marist í bandaríska háskólaboltann áður en hann kom svo aftur til Njarðvíkur á þessu tímabili.

 

Njarðvíkingar að sjálfsögðu að gera það sem þeir geta til þess að ganga frá þeirri skuld, sem hefur haldið leikmanninum í borgaralegum klæðum síðustu tvo leiki. Meðal annars með því að fyrrum dómarinn og Njarðvíkingurinn Lárus Ingi Magnússon setti af stað söfnun fyrir lausnargjaldinu.

 

Nýtt í málinu er það að nú hafa nágrannar þeirra boðist til þess að greiða sektina, gegn því að fá að semja við hann, en einn fyrrum stjórnarmeðlimur körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, Brynjar Guðlaugsson, setti inn færslu (sem sjá má hér fyrir neðan) á Twitter þess efnis. 

 

 

Líklegt verður þó að þykja að þarna sé um grín að ræða að því leyti að ólíklegt þykir að Njarðvík gangi ekki frá sínum málum, þó svo að Keflavík (sem og önnur lið) væru glöð til í að greiða sektina í skiptum fyrir starfskrafta þessa efnilega leikmanns.

 

Samkvæmt nýjustu heimildum Karfan.is er það ekki enn komið á hreint hvort að Kristinn verði með Njarðvík í kvöld gegn Þór Akureyri í Ljónagryfjunni. Þó telur heimildarmaður meiri líkur á því en ekki.