Gunnari Inga Gunnarssyni brá heldur við vinnu sína í Ostabúðinni á Skólavörðustíg fyrr í dag þegar inn gekk leikmaður LA Clippers, DeAndre Jordan. Jordan hefur leikið í NBA deildinni síðan árið 2008, en hann hefur ásamt öðru verið valinn í Stjörnuleik deildarinnar (2017), sem og verið í fyrsta úrvalsliði hennar (2016)

 

Samkvæmt Gunnari var DeAndre þarna í hádegismat, en að öðru leyti er ekkert frekar vitað um ferðir hans á Íslandi. 

 

Myndina tók Gunnar af DeAndre með frænda sínum, Helga Bárðarsyni, en eins og glöggir taka eftir er hann með New York Knicks derhúfu. Samkvæmt Helga íhugaði hann að taka húfuna niður, þar sem að Jordan spilar með Clippers. Eins og áhangendur deildarinnar (og Helgi) vita, þá er Jordan með lausan samning í sumar og vildi Helgi reyna hvað hann gæti til þess að fá þennan fína leikmann til Knicks.

 

Líklegt verður þó að þykja að hann sé að nýta sér Stjörnuleiksfríið til þess að skoða landið, en næsti leikur Clippers er ekki fyrr en 22. febrúar.

 

Mynd / DeAndre Jordan og Helgi Bárðarson fyrr í dag