Íslenska landsliðið mætir Svartfjallalandi kl. 18:00 í dag í Podgorica. Leikurinn seinni leikur tveggja í þessum glugga sem liðið leikur í undankeppni EuroBasket, en þeim fyrri tapaði liðið fyrir Bosníu. Karfan heyrði í þjálfara liðsins Ívari Ásgrímssyni og spurði hann út í viðureignina.

 

 

Hvað þurfið þið að gera til þess að sigra leikinn í dag?

"Það er ljóst að við erum að spila á móti gríðarlega sterku lið sem er meðal annars skipað tveim leikmönnum sem eru/hafa spilað í WNBA deildinni, nr. 10 Dubljevic og nr. 25 Glory Johnson auk mjög góðra skyttu í leikmanni nr. 14, Jovanovic.

Liðið þeirra er hávaxið og því erfitt að ætla að verja allar stöður. Við þurfum að loka teignum, ná varnarfráköstum og stöðva þessa þrjá lykilmenn. Við þurfum því að hjálpa aðeins af hinum leikmönnunum og treysta því að þær haldi áfram að gera lítið eins og þær hafa gert í síðustu leikjum.

 

Við gætum lent í vandræðum ef hinar fara að hitta að utan eins og gerðist í 3ja leikhluta á móti Bosníu"

 

 

Hafið þið skoðað Svartfjallaland liðið mikið, hverjir eru helstu veikleikar/styrkleikar þeirra? 

"Við höfum auðvitað legið yfir video auk þess að skoða síðasta leik okkar á móti þeim en þar fór Dubljevic illa með okkur og þurfum við að finna lausnir til að stöðva hana. Þeirra helstu styrkleikar eru í áðurnefndum þrem leikmönnum auk þess að vera hávaxnar og því erfitt að sækja beint á þær.

Við þurfum að hitta vel að utan til að ná að draga þær út úr teignum og fleiri en Hildur og Helena þurfa að stíga upp sóknarlega. Ljóst er að þær munu leggja ofuráherslu á að stöðva Helenu og það mun losna um aðra leikmenn og þær þurfa að notfæra sér það"

 

 

Hvað takið þið jákvætt frá síðsta leik inn í þennan?

"Fyrri hálfleikur á móti Bosníu var mjög góður. Í fyrsta leikhluta vorum við agaðar í sókn, létum þær ekki pressa okkur í að fara strax í drippl og boltinn gekk vel þar sem margar voru að leggja í púkkið. Í öðrum leikhluta sýndum við karakter með að ná upp smá mun sem Bosnía hafði náð, varnarlega héldum við skipulagi og Helena dróg vagninn sóknarlega en vantaði kannski að fleiri skoruðu.

Í síðari hálfleik þá fór nr. 10 hjá Bosníu, Gajic, sem var búinn að vera með 17% 3ja stiga nýtingu úr síðustu tveim leikjum, að hitta fyrir utan 3ja stiga línuna og við það riðlaðist okkar varnarleikur mikið og skipulagið fór smátt og smátt í burtu. Við vissum að hún væri algjör lykilmaður í kringum teiginn og væri svakalega grimm í sóknarfráköstum en í byrjun 3ja setti hún tvo þrista og tvær körfur eftir sóknarfrákast og gaf hinum í liðinu mikið sjálfstraust og um miðjan 3ja leikhluta brenndu þær varla af skoti fyrir utan og þá var þetta orðið erfitt fyrir okkur.

Sóknarlega vorum við I miklum vandræðum þar sem við fengum engar körfur nema frá Helenu og Hildi og á móti svona sterkum andstæðingi þá gengur það ekki.

Ljóst er að við þurfum að halda skipulagi í vörn, vera agaðar bæði í sókna og vörn. Fara í rétta leikmenn, velja þá leikmenn sem við viljum að skjóti fyrir utan og ná varnarfráköstum. Sóknarlega verðum við að halda haus og ekki láta ýta okkur í endalaus drippl þar sem við töpum of mörgum boltum. Verðum að nýta okkur það að það verða 2-3 að passa Helenu og fá körfur frá fleiri leikmönnum.

Við erum núna með 6 leikmenn af 12 sem eru að spila sýna fyrstu alvöru A landsleiki á móti gríðarlega sterkum andstæðingum, þar af eru 3-4 að spila nokkuð stórt hlutverk, eins og Dýrfinna, Elín Sóley og Sóllilja og Jóhanna og Guðbjörg að spila mun stærra hlutverk en þær hafa gert síðustu ár.

Ljóst var fyrir mótið að þetta yrði erfitt en það eru allir að gefa allt í verkefnið og að leggja sig fram en reynslan í svona leikjum er af skornum skammti. Liðið er í framför og við ætlum að sýna það í leiknum á móti Svartfellingum"