Íslenska landsliðið mætir Bosníu kl. 16:00 í dag í Sarajevó. Leikurinn fyrri leikur tveggja í þessum glugga sem liðið leikur í undankeppni EuroBasket. Karfan heyrði í þjálfara liðsins Ívari Ásgrímssyni og spurði hann út í viðureignina.

 

Hvað þurfið þið að gera til þess að sigra leikinn í dag?

"Fyrst og fremst þá verðum við að spila agaðan sóknarleik og megum ekki tapa mörgum boltum. Vörnin hjá okkur hefur yfirleitt verið nokkuð góð og hún þarf að halda áfram að virka, megum ekki fá mikið meira en 65 stig á okkur til að eiga góða möguleika"

 

Hafið þið skoðað Bosníu liðið mikið?

"Við höfum auðvitað skoðað þær töluvert og hefur Baddi aðstoðarmaður minn farið vel yfir hvað þær eru að gera í sókn og vörn og hefur farið vel yfir þeirra sóknarleik. Þær hafa að vísu styrkst töluvert frá síðustu tveim leikum þar sem liðið hefur fengið WNBA leikmann fyrir þessa leiki sem þær spila núna, Lynette Keizer WNBA"

 

Hverjir eru helstu veikleikar/styrkleikar þeirra?

"Ljóst að sóknarleikur þeirra mun breytast eitthvað með tilkomu hennar þar sem hún er gríðarlega sterk í kringum teiginn og höfum við aðeins verið að fara yfir tvöföldun á low post"

"Þær eru með tvo sterka leikmenn að auki sem spilið snýst dálítið um, bakvörð og svo sterkan fjarka. Þær eru kannski ekki neitt gríðarlega sterkt skotlið og það er þeirra helsti veikleiki. Eru duglegar og berjast fyrir öllum boltum"
 

 

Nú vantar einhverja leikmenn, hvernig finnst þér liðið vera að koma saman?

"Jú það vantar einhverja leikmenn og er það miður. Okkur vantar mikilvæga leikmenn sem hafa verið að spila stórt hlutverk í síðustu leikjum eins og Rögnu Margréti og Thelmu. Við hefðum auðvitað getað notað þær báðar þar sem Ragna Margrét er góður varnarmaður og veit um hvað þetta snýst og svo er Thelma mjög góður liðsmaður sem gerir lítið af mistökum og nýtist því mjög vel með sterkum leikmönnum. En það koma menn inn í staðinn, leikmenn sem hafa verið að standa sig vel í vetur og hafa æfingar gengið mjög vel þar sem allar eru ákveðnar í því að gera sitt besta"

 

"Við ætlum okkur auðvitað sigur í þessum leik á móti Bosníu en gerum okkur líka grein fyrir því að margt þarf að ganga upp og okkar tveir lykilmenn, Helena og Hildur þurfa báðar að hitta á toppleik"