Ísland mætir Finnlandi í undankeppni Heimsmeistaramótsins í kvöld. Leikurinn fer fram í Laugardalshöll í kvöld kl 19:45 en hann er í þriðju umferð undankeppninnar. 

 

Finnland er í öðru sæti G-riðils eftir tvo leiki með einn sigur og eitt tap. Ísland situr í fjórða og neðsta sæti með tvö töp. Leikur dagsins gæti því reynst ansi þýðingarmikill fyrir framhaldið í undankeppninnni. 

 

 

Það vantar nokkra af sterkustu leikmönnum Finnlands í leikmannahópinn en þeirra skærasta stjarna Lauri Markkanen spilar eins og flestir vita í NBA deildinni og getur því fyrir vikið ekki tekið þátt í verkefninu. Þeir Petteri Koponen leikmaður Barcelona og Sasu Salin leikmaður Unicaja fengu ekki leyfi frá sínum félögum til þess að vera með í þessum leik. 

 

Þessi lið mættust einnig í síðasta leik riðlakeppni Eurobasket 2017 sem fram fór í Helsinki. Þar tapaði Ísland 83-79 í spennuleik þar sem Ísland leiddi lungan úr leiknum. Tapið var því nokkuð súrt fyrir Íslenska liðið sem hefur harma að hefna í kvöld. 

 

Stuðningsmannasveitir landsins hafa safnast saman og ætla að leiða stuðið í leiknum. Auk þess mun óperusöngkonan Elsa Waage flytja þjóðsöngin og því ljóst að umgjörðin er að taka mikilum framförum. Þá má ekki gleyma því að þetta er í næst síðasta skipti sem Logi Gunnarsson klæðist treyju íslenska landsliðsins og því mikið í húfi að mæta í höllina. 

 

Mikilvægt er því að fylla Laugardalshöllina og styðja íslenska landsliðið til sigurs í þessum þýðingarmikla sigri. Leikurinn hefst kl 19:45 og er miðasala hafin hér. 

 

Tólf manna leikmannahópur Íslands var tilkynntur í gærkvöldi og má finna hann hér. 

 

Til að hita upp fyrir kvöldið má finna hér að neðan það helsta úr leik Íslands og Finnlands frá síðasta Eurobasket. Troðslur Kristófers og Hauks Helga fara ansi hátt auk sárasta miðjuskoti sögunnar frá Sasu Salin sem verður ekki með Finnska liðinu í dag.