Í kvöld hefst 17. umferðin í Domino´s-deild karla með viðureign ÍR og Þórs úr Þorlákshöfn. Leikurinn fer fram í Hertz-Hellinum í Breiðholti þar sem ÍR getur með sigri náð toppsætinu á nýjan leik en Þór fer vafalítið hart á eftir stigunum enda Þorlákshafnarmenn í bullandi baráttu um sæti í úrslitakeppninni við Keflavík og Stjörnuna.

Í fyrri umferðinni voru það ÍR-ingar sem gerðu góða ferð í Þorlákshöfn með 69-77 útisigri en Þórsarar hafa verið að sækja í sig veðrið á nýja árinu, hafa unnið 2 af fyrstu fimm leikjum ársins og búnir að endurheimta Snorra Hrafnkelsson í teiginn.

Þá er toppslagur í 1. deild kvenna í kvöld þegar KR tekur á móti Fjölni kl. 20:00 í DHL-Höllinni. KR leiðir 1. deild kvenna með fullt hús stiga eftir 17 sigurleiki í röð í deildinni. Fjölnir er þar skammt á hæla KR með 26 stig. KR vann fyrsta leikinn milli liðanna 74-57 og annan leikinn 61-73 í Dalhúsum. Tekst Fjölni að verða fyrsta liðið í vetur til að leggja KR að velli í 1. deildinni?