Sæþór Elmar Kristjánsson er nafn sem flestir körfuboltaáhugamenn ættu að hafa heyrt síðustu misserin. Þessi ungi leikmaður hefur sprungið út á þessu tímabili og vakið athygli fyrir baráttu sína á vellinum. 

 

Hann er fæddur árið 1997 og á að baki landsleiki með öllum yngri landsliðum Íslands. Síðasta sumar lék hann með U20 landsliðinu í A-deild evrópumótsins. Þar var hann með tvö stig að meðaltali í leik. 

 

Karfan.is ræddi við Sæþór á dögunum um körfuboltann og tímabilið. Einnig var rætt við aðila í kringum lið ÍR og þeir spurðir um framfarir Sæþórs. 

 

„Mamma lét mig í körfubolta þegar ég var níu ára og síðan þá er þetta það skemmtilegasta sem ég hef gert allt mitt líf. Frábær félagsskapur sem maður kynnist í gegnum körfuna.“ sagði Sæþór um upphaf körfuboltans hjá sér en hvað er sérstakt við körfuboltann að hans mati? 

 

„Það er bara eitthvað svo fallegt við það þegar allt gengur saman í sókn og vörn. Körfubolti er hálfgerð list.“

 

Sæþór hefur vakið athygli fyrir varnarleik sinn og baráttu. Auk þess getur hann sett risa stór skot niður og átti til að mynda frábæran leik gegn Keflavík fyrir stuttu í Seljaskóla. 

 

„Ég set stoltið mitt í vörnina og sóknin fylgir með því. Verð miklu pirraðari í sjálfan mig þegar ég klúðra í vörnini heldur en sókninni“ sagði Sæþór um sinn stíl sem leikmaður.

 

 

Blaðamaður Karfan.is fékk veður af því að fyrir einhverju hafi litlu munað að Sæþór hafi hætt í körfubolta á tímapunkti þar sem lítið gekk hjá honum. Sæþór sagði að í raun hafi hann verið ansi langt frá því að hætta en sögurnar væru ekki alveg ósannar. 

 

„Það er ekki alveg rangt að ég var næstum hættur. Var einu sinni í smá pásu en er svo þrjóskur að ef eitthvað gengur ekki vel hjá mér þá held ég áfram þangað til ég fæ það til að virka. “ 

 

Borce Ilievski tók við sem aðalþjálfari ÍR í nóvember 2015. Sveinbjörn Claessen fyrirliði ÍR sagði í samtali við karfan.is að ráðning hans hafi verið gæfuspor og þá sérstaklega fyrir Sæþór. 

 

„Framfarir hans leynast ekki. Borce vill að Sæþór spili á vængnum sem skotmaður en ekki undir körfunni eins og hann gerði áður en hann tók við. Verkefnið er á áætlun en er ekki lokið. Sæsi er viljugur til að bæta sig og ef vinnusemin er til staðar eru honum allir vegir færir að verða mjög öflugur leikmaður og fyrirmynd annarra. Á því leikur enginn vafi. Hann er umvafinn hæfu og fórnfúsu fólki sem mun gera hann að betri leikmanni. Þetta er allt undir honum komið. Ég hlakka til að fylgjast með honum eflast og þroskast áfram, bæði sem körfuboltamaður og einnig sem einstaklinur utan vallar.“ 

 

Undir þetta tekur Sæþór sjálfur sem virðist ansi sáttur við þjálfarann Borce. 

 

 

„Hann er þjálfari sem vill vel fyrir alla leikmennina sína en lætur þig samt alltaf vinna fyrir hlutverkinu þínu í liðinu. Sem er gott því ef þu ert ekki að standa þig þá kemur bara einhver annar í staðinn fyrir þig sem er góð hvatning.“ sagði Sæþór og bætti við:

 

„Hann fær liðið til að spila góða vörn fyrst og fremst sem gefur okkur góða stemningu í leikjum og hann er góður ásamt Árna að finna hvernig lið spila og vinna vel úr því að koma því til leikmannana í ÍR.“ 

 

 

Árni Eggert Harðarson aðstoðarþjálfari ÍR ber Sæþóri vel söguna. Hann segir að fyrir Sæþóri hafi ekki komið til greina að skipta um lið. „Hann spýtti bara í lófana. Lagði meira á sig og vann sig upp í þá stöðu sem hann er kominn í dag.“ sagði Árni og bætti við: 

 

„Þetta var ekki spurning um að bæta ákveðnar þætti heldur bara gera betur og af meiri krafti. Þegar hún kom þá fóru hlutirnir virkilega að ganga hjá honum“

 

Kristján Pétur Andrésson sem lék með ÍR nokkur tímabil og tók síðar við sem formaður körfuknattleiksdeildarinnar hafði ekkert nema gott af Sæþóri að segja. Kristján sagði að á síðasta tímabili hafi hann boðið Sæþóri að spila á venslasamning hjá öðru liði til að fá fleiri mínútur á vellinum. Sæþór hafi þá svarað því strax til að úr því yrði ekki, því hann myndi bara spila fyrir ÍR. 

 

Ef einhver þekkir hvernig það er að spila fyrir ÍR þá er það sjálfur Sveinbjörn Claessen fyrirliði liðsins. Þegar hann var spurður um Sæþór sat ekki á svörum. 

 

 

„Sæþór er ljúfur og góður drengur. Utan vallar fer ekki mikið fyrir honum, er hæglátur en alltaf með á nótunum. Hendir reglulega fram svokölluðu ,,Sæsagríni” sem er þá vanalega óviðbúið en gott.“ sagði Sveinbjörn og bætti við: 

 

„Innan vallar er drengurinn gæddur sjaldgæfum hæfileikum að því leyti að vera hávaxinn, tæpir tveir metrar, en um leið mjög hreyfanlegur. Boltatæknin er ágæt en hann þarf þó að vinna í henni. Skotið silkimjúkt. Er afburða varnarmaður þegar einbeitingin er upp á tíu. Geta hans til að verja skot er að mínu mati einstök. Styrk þarf hann að bæta og það veit hann.“

 

„Mér þykir Sæþór hafa eflst mikið síðasta árið sem körfuboltamaður og ekki síður sem fullorðinn og þroskaður einstaklingur. Merki um það er hversu vel hann tekur leiðbeiningum.Fyrir mér sýnir þetta þróun hans í átt að leiðtogahæfni sem hann mun efla eftir því sem fram vindur.“

 

 

Fyrir síðasta þátt af Podcasti Karfan.is var gerð könnun meðal lesenda þar sem meðal annars var spurt um hvaða leikmaður hefði tekið mestum framförum á tímabilinu. Sæþór Elmar var efstur í þeirri könnun með nærri 38% greiddra atkvæða sem er 22 prósentustigum hærra en næsti maður. 

 

ÍR mætir Þór Þ í 17. umferð Dominos deildar karla í kvöld. Liðin mættust fyrr á tímabilinu í Þorlákshöfn þar sem Breiðhyltingar unnu 77-69. Búast má við því að Sæþór verði í stóru hlutverki í liði ÍR í leiknum en spennandi verður að fylgjast með framförum hans áfram.