Nú eftir helgina mun landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson opna japanska fusion staðinn Nü – Asian Fusion á Garðatorgi í Garðabæ. Karfan heyrði í Hlyn og spurði hann aðeins út í verkefnið.

 

Hérna er Nü – Asian Fusion á Facebook

 

Hvað heitir staðurinn sem þú ert að opna?

"Nü – Asian Fusion. Þetta er japanskur fusion staður sem einblínir á hollan mat, með mikið af því besta frá Japan í bland við áhrif annars staðar frá."

 

Hvar er hann?

"Garðatorgi 6 í Garðabæ. Tilvalið eftir leik eða mót í Ásgarði!"

 

 

Hvenær opnið þið?

"Ég segi eftir helgi, vil ekki slá neinu föstu. Það er allt nánast orðið klárt, verið að leggja lokatouchið á allt um helgina."

 

Hvað kemur til að þú ert að fara út í veitingahúsageirann?

"Það var í raun ekki planið,  ég er ekki með neina reynslu þar, mig langaði þó að fara af stað með einhvern rekstur og var með nokkra aðra hluti í huga og sumt komið lengra en annað. Það sem kom þessu af stað var að ég kynntist Stefáni Magnússyni í gegnum körfuna hjá Stjörnunni, hann á og rekur Mathús Garðabæjar sem hefur gengið frábærlega, ásamt því að hafa unnið á nokkrum af bestu veitingastöðum höfuðborgarsvæðisins. Bæði hann og aðrir í kringum þetta hafa bæði mikla reynslu og gott orðspor í þessum bransa. Þessi þekking ásamt því að mér líkaði hugmyndin, allt frá matseðlinum og fyrir hvað þetta ætti að standa varð til þess að mér fannst ég verða að slá til. Nú eftir að hafa kynnst þessu fólki betur er ég mjög spenntur að vinna með því. Mikið fagfólk."

 

 

 

Nú ert þú ekki fyrsti landsliðsmaðurinn sem ferð í matargeirann, var einhverja hjálp að hafa í Pavel og Jóni?

"Að sjálfsögðu hef ég spjallað við þá um þetta, þó þetta sé að sjálfsögðu ólík verkefni. Það er nærandi fyrir sálina að eiga gott spjall við kaupmennina! Ég geri það eins oft og get."

 

Hvað er best á matseðlinum?

"Það er af mörgu að taka, mitt uppáhald núna er frækex sem við gerum á staðnum með Edamame hummus, andasalatið, tær japönsk súpa með svínasíðu. Við bjóðum svo að sjálfsögðu uppá drykki sem henta hverju tilefni.

 

Svo er gott að toppa þetta með avocado ostaköku."